Skoðun

Fá­tæktar­gildran

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Ég tel að leikreglurnar séu ósanngjarnar og margt í okkar ágæta kerfi vinni gegn venjulegu, harðduglegu launafólki. Birtingarmynd stærsta vandans er sú staðreynd að ævilaun allt of margra Íslendinga duga ekki fyrir skuldlausri fasteign við starfslok.

Hvernig má það vera að þegar sjötug hjón hætta á vinnumarkaði, eftir að hafa greitt fasteignina sína a.m.k. tvisvar ef ekki þrisvar til baka á lánstímanum, bíði þeirra gluggapóstur frá bankanum langt inn í ævikvöldið? Hvernig stendur á því, að í einu launahæsta landi heims, standi ævilaun venjulegs fólks ekki undir skuldlausri fasteign við starfslok?

Ef við leikum okkur svolítið og berum okkur saman við Norðurlöndin og norður Evrópuríkin sést glöggt að frændur okkar þar greiða húsnæði sitt til baka einu og hálfu sinni. 60 milljón króna eign endar á lánstímanum í 90 milljónum. Hér á Íslandi hefur gilt að 60 milljón króna eign endi í 180 milljónum á lánstímanum. Í hverju liggur munurinn? Munurinn liggur í því að íslensku alþýðufólki er gert að taka lán í íslenskum krónum sem bera gífurlega háa vexti á meðan frændur okkar geta tekið lán í óverðtryggðum Evrum á mun lægri vöxtum. Það má því segja að kostnaðurinn við að halda úti krónunni sé í raun allt að helmingur mánaðarlegrar afborgunar af húsnæðisláninu þínu. Ef þú borgar 300 þúsund krónur á mánuði í afborganir af íbúðarláninu þá fara allt að 150 þúsund krónur í kostnað vegna krónunnar.

Það er kannski rétt að nefna að vaxtalækkanir undanfarin misseri hafa ekki farið fram hjá greinarhöfundi. Þessi lækkun hefur haft það í för með sér að vissulega hefur greiðslubyrði nýrra lána lækkað, a.m.k. tímabundið. Þessi lækkun er þó ekki talin varanleg og því hefur Seðlabankinn varað almenning við því að óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum muni nær örugglega hækka verulega. Einnig hefur það ekki farið framhjá undirrituðum að stjórnmálamenn hafa verið iðnir í gegnum tíðina að útvega landsmönnum lengri lán, hærri veðhlutföll, 100% lán og brúarlán í stað þess að taka á rót vandans, krónunni.

Krónan kostar þig jafn mikið og húsnæðið þitt.

Mér finnst betri tilhugsun að hugsa sem svo að við lok starfsævinnar eigi ég skuldlaust húsnæði og andvirði fasteignarinnar á bankabókinni minni. Þessi framtíðarsýn mín er ekki framkvæmanleg með verðtryggðri íslenskri krónu. Íslenska krónan er fátæktargildra. Viðreisn vill taka upp stóra alþjóðlega mynt. Það vil ég líka.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×