Erlent

Telja að gen frá neander­­dals­­manninum auki líkurnar á að veikjast al­var­­lega af Co­vid-19

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Neanderdalsmaðurinn er hér til sýnis á Náttúruminjasafninu í London. Arfur frá honum er talinn geta aukið líkurnar á því að fólk veikist alvarlega af Covid-19.
Neanderdalsmaðurinn er hér til sýnis á Náttúruminjasafninu í London. Arfur frá honum er talinn geta aukið líkurnar á því að fólk veikist alvarlega af Covid-19. Getty/Mike Kemp

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birt var í vísindatímaritinu Nature í vikunni og fjallað er um á vef Guardian benda til þess að gen sem nútímamaðurinn erfði frá neanderdalsmanninum geti þrefaldað líkurnar á því að fólk veikist alvarlega af sjúkdómnum Covid-19.

Um er að ræða genaklasa frá því fyrir meira en 50 þúsund árum og bera 16% Evrópubúa og helmingur Suður-Asíubúa þessi gen í dag.

Rannsóknin náði til 3.199 einstaklinga sem þurftu að leggjast inn á sjúkrahús vegna Covid-19. Tengslin á milli alvarlegra veikinda og fyrrnefnds genaklasa komu í ljós þegar vísindamenn í Svíþjóð og Þýskalandi báru saman erfðaefni (DNA) úr mjög veikum sjúklingum við erfðaefni úr neanderdalsmanninum og denisovamanninum.

Erfðaefnið sem gerir það líklegra en ella að fólk veikist alvarlegar af Covid-19 svipaði mjög til erfðaefnis sem tekið var úr neanderdalsmanni sem rakinn er til landsvæðisins sem nú er Króatía.

„Ég datt næstum því úr stólnum mínum því þessi hluti erfðaefnisins var nákvæmlega sá sami og í erfðamengi neanderdalsmannsins,“ segir Hugo Zeberg, vísindamaður við Karolinska Institute í Stokkhólmi og einn þeirra sem kom að rannsókninni, í viðtali við Guardian.

Zeberg og meðhöfundi hans í rannsókninni, Svante Pääbo, forstöðumaður Max Planck Institute of Evolutionary Anthropology í Leipzig, grunar að þessi genaklasi neanderdalsmannsins hafi varðveist í nútímamanninum vegna þess að eitt sinn komu þau sér vel, mögulega í baráttunni við annars konar sýkingar.

Það sé ekki fyrr en nú, þegar ný sýking lítur dagsins ljós, sem ókostur genaklasans komi í ljós.

Að því er fram kemur í umfjöllun Guardian um rannsóknina er óljóst hvernig genaklasinn geti aukið líkurnar á því að veikjast alvarlega af Covid-19.

Vitað er að eitt genið hefur með ónæmissvar líkamans að gera og annað gen tengist því hvernig veirur brjóta sér leið inn í frumur mannsins.

„Við erum að reyna að negla niður hvað gen er í aðalhlutverki hérna eða hvort það eru nokkur gen í aðalhlutverki en í hreinskilni sagt vitum við ekki hver þau eru með tilliti til Covid-19,“ segir Zeberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×