Innlent

Elsti Ís­lendingurinn safnaði birkifræjum og fékk sér ís

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Dóra og Andrea Lind, ásamt Kristni H. Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Kópavogs og afi Andreu og Áskell Þórisson, sonur Dóru.
Dóra og Andrea Lind, ásamt Kristni H. Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Kópavogs og afi Andreu og Áskell Þórisson, sonur Dóru. Vísir/Magnús Hlynur

Það er fátt eða ekkert sem stoppar elsta Íslendinginn, hina 108 ára gömlu Dóru Ólafsdóttur, til að ganga til verka. Dóra skellti sér í gær af hjúkrunarheimilinu sínu í Reykjavík í ísbíltúr með syni sínum í Hveragerði. Þar notaði hún tækifærið til að safna birkifræjum.

Dóra sem er fædd 6. júlí 1912 fékk son sinn til að fara með sig í Hveragerði í gær. Efst á óskalistanum var ís og að safna birkifræjum við lystigarðinn. Dóra er elsti núlif­andi Íslend­ing­ur­inn, fædd í Sig­tún­um á Kljá­strönd í Grýtu­bakka­hreppi.

Andrea Lind Ívarsdóttir, átta ára nemandi í Ísaksskóla, mætti með Dóru í Hveragerði til að tína birkifræið. Heild öld skilur þær að í aldri.

„Mér finnst að ungir og gamlir eigi að vera í því að safna birkifræi og lífga upp á landið. Ég stend í fæturna með fólkinu sem er að tína. Þetta er það sem ég hef áhuga á, til að bjarga landi og þjóð,“ segir Dóra.

Hún bætir við að hún þurfi ekki að kvarta verandi 108 ára því hún hafi það mjög gott.

„Ég þekki ekki það að verða að gefast upp við eitthvað. Maður verður að standa sig vel. Ég þakka háum aldri að hafa lifað heilbrigðu lífi með góðu fólki,“ segir Dóra.

Dóra kom við hjá Kjörís í Hveragerði þar sem Valdimar Hafsteinsson, forstjóri fyrirtækisins bauð henni upp á ís en henni hefur alltaf þótt ís mjög góður.Vísir/Magnús Hlynur

Andreu Lind fannst mikill heiður að fá að tína birkifræ með elsta Íslendingnum. 

En hvað á svo að gera við fræin?

„Sá þeim og rækta þau, þá verða til falleg tré,“ segir Andrea Lind.

Dóra hafði þetta að segja að lokum.

„Enn og aftur segi ég takk fyrir mig og bið alla að fara nú út og tína fræ og dreifa þessu vel svo að landið náið sér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×