Fótbolti

Andri Rúnar bjargaði stigi fyrir Esbjerg | Sjáðu markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andri Rúnar bjargaði stigi fyrir Esbjerg í dag.
Andri Rúnar bjargaði stigi fyrir Esbjerg í dag. Esbjerg

Sannkallaður Íslendingaslagur átti sér stað í dönsku B-deildinni í dag. Andri Rúnar Bjarnason bjargaði stigi fyrir Esbjerg er liðið mætti Viborg á heimavelli sínum.

Þjálfari Andra Rúnars er Ólafur Kristjánsson og þá er Patrik Gunnar Sigurðsson, markvörður íslenska U21 árs landsliðsins, milli stanganna hjá Viborg.

Gestirnir komust yfir um miðbik fyrri hálfleiks með marki Jacob Bonde. Jakob Ankersen jafnaði metin fyrir Esjberg en gestirnir komust aftur skömmu áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Gestirnir því 2-1 yfir og það voru þeir enn þegar Andri Rúnar kom af bekknum á 74. mínútu. Það tók Andra aðeins sjö mínútur að jafna metin í 2-2 og þar við sat. Zean Peetz Dalugge fékk sitt annað sitt gula spjald í uppbótartíma og þar með rautt en það kom ekki að sök.

Jafntefli þýðir að Viborg heldur toppsætinu með 14 stig eftir sex leiki en liðið á enn eftir að tapa leik. Esbjerg er aðeins stigi á eftir en stutt er á milli í efri hluta deildarinnar. Til að mynda er Hobro í 6. sæti með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×