Fótbolti

Stoke-framherjinn til Evrópumeistaranna frá silfurliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eric Maxim Choupo-Moting hefur skrifað undir eins árs samning við Bayern München.
Eric Maxim Choupo-Moting hefur skrifað undir eins árs samning við Bayern München. GETTY/DAVID RAMOS

Eric Maxim Choupo-Moting er genginn í raðir Bayern München á frjálsri sölu frá Paris Saint-Germain.

Mikla athygli vakti þegar Choupo-Moting fór til PSG frá Stoke City fyrir tveimur árum. Hann var í liði Stoke sem féll úr ensku úrvalsdeildinni eins og menn á borð við Xherdan Shaqiri og Kurt Zouma sem leika í dag með Liverpool og Chelsea.

Choupo-Moting skoraði níu mörk í 51 leik fyrir PSG. Það eftirminnilegasta kom gegn Atalanta í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í ágúst.

Choupo-Moting kom inn á sem varamaður þegar PSG tapaði fyrir Bayern München, 0-1, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Nú er hann farinn til Evrópumeistaranna þar sem honum verður væntanlega ætlað að vera varamaður fyrir Robert Lewandowski.

Choupo-Moting er fæddur í Þýskalandi og lék áður með Hamburg, Nürnberg, Mainz og Schalke þar í landi. Hann lék fyrir yngri landslið Þýskalands en valdi svo að spila fyrir hönd Kamerún, heimalands föður síns. Choupo-Moting hefur skorað fimmtán mörk í 55 landsleikjum fyrir Kamerún.

Bayern hefur einnig fengið brasilíska kantmanninn Douglas Costa á láni frá Juventus. Hann þekkir vel til Bayern en hann lék með liðinu á árunum 2015-18.

Þá keypti Bayern Bouna Sarr frá Marseille. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við Bayern. Sarr er 28 ára hægri bakvörður sem lék með Marseille í fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×