Innlent

Smitaðir tengdir Hnefaleikafélaginu orðnir á fjórða tug

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Æfingasalur Hnefaleikafélags Kópavogs.
Æfingasalur Hnefaleikafélags Kópavogs. Facebook/Hnefaleikafélag Kópavogs

Kórónuveirusmit sem rekja má til Hnefaleikafélags Kópavogs eru nú orðin á fjórða tug og hefur því fjölgað ört í dag. Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum gætu fleiri smitaðir bæst í hópinn – eða þeim fækkað – eftir því sem líður á daginn. Stjórnendur félagsins þykja hafa tekið afar vel á málum eftir að fyrsta smitið greindist.

Vísir greindi frá því fyrr í dag að um tuttugu kórónuveirusmit mætti rekja til félagsins eftir að iðkandi greindist með veiruna á fimmtudag. Smitin eru rakin til æfinga hjá félaginu helgina áður, síðustu helgi septembermánaðar.

Ríkisútvarpið greindi svo frá fjölgun smitanna nú síðdegis en Jóhann K. Jóhannsson upplýsingastjóri almannavarna staðfestir í samtali við Vísi að smitin tengd hnefaleikafélaginu séu orðin á fjórða tug. Hann segir að fjölgað gæti í hópnum eftir því sem smitrakningu fleytir fram – en þá gæti líka verið að einhverjir detti af listanum. Stutt sé síðan sá fyrsti í keðjunni greindist og smitrakning enn í gangi.

Viðbrögð stjórnenda til fyrirmyndar

Þá ber Jóhann stjórnendum félagsins vel söguna og segir þá hafa brugðist hárrétt við þegar fyrsti iðkandi greindist á fimmtudag.

„Það sem hefur hjálpað í þessu máli er samstarfið við þá sem reka stöðina. Góð upplýsingagjöf, öllum leiðbeiningum fylgt og það auðveldaði vinnuna strax í upphafi,“ segir Jóhann.

Hann telur jafnframt að þetta sé stærsta hópsýking Covid-19 sem tengist íþróttastarfi hingað til. Nokkur smit hafa jafnframt verið rakin til líkamsræktarstöðva, sem öllum var gert að loka samkvæmt hertum sóttvarnarreglum í dag.

Hnefaleikafélagið greindi sjálft frá því á Facebook í gær að iðkandi hefði greinst með Covid-19 og fleiri smitast í kjölfarið. Þá kallaði félagið eftir því að þeir sem komið hefðu í húsakynni þess að Smiðjuvegi upp á síðkastið útbyggju greinargóðan lista yfir þá sem þeir hefðu verið í návígi við, til að létta undir með smitrakningarteyminu. Hnefaleikafélaginu verður lokað næstu tvær vikurnar vegna þessa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×