Innlent

Gengið vonum framar að ná utan um smit á hjúkrunar­heimilum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
María Fjóla Harðardóttir er forstjóri Hrafnistu.
María Fjóla Harðardóttir er forstjóri Hrafnistu. Vísir/Vilhelm

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, segir það hafa gengið vonum framar að ná tökum á þeim kórónuveirusmitum sem komið hafa upp á heimilum Hrafnistu að undanförnu. Þrjár deildir voru sendar í sóttkví vegna smitanna, en tvær eru nú lausar úr sóttkví. Á miðvikudaginn kemur í ljós hvort sú þriðja muni áfram þurfa að sæta sóttkví eða ekki.

„En við erum með þrjá einstaklinga á sjúkrahúsi, þannig að við erum ekki með smit inni á heimilunum. Það er í raun bara að þakka starfsfólki, stjórnendum og stoðdeildum fyrir ótrúlegt framtak,“ sagði María í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hún segir þá að á heimilum Hrafnistu séu viðhafðar harðar sýkingavarnir. Það sjáist best á því að ekki hafi komið upp fleiri smit í tengslum við þau sem urðu í síðustu viku. Þá séu heimilin áfram lokuð og það dragi verulega úr því að veiran berist inn á heimilin.

Ráðuneytið ekki svarað bréfi um Covid-deild fyrir íbúa

María er ein þeirra sem kallað hefur eftir því að sett verði á fót sérstök deild fyrir íbúa hjúkrunarheimila sem greinist með Covid-19. Hún segir mikilvægt að aðskilja þá sem smitast hafa af Covid-19 og aðra.

„Inni á hjúkrunarheimilunum eru bara fjölmargir einstaklingar sem tilheyra viðkvæmum hóp og við teljum að við náum meiri árangri í að halda heimilunum frá smiti ef við náum að koma smitinu út. Það er stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem skrifuðu heilbrigðisráðherra bréf og óskuðu eftir fundi síðastliðinn þriðjudag,“ sagði María.

Hún segir að svar hafi ekki enn borist frá heilbrigðisráðuneytinu, en hún búist enn við því að það berist.


Tengdar fréttir

Nauðsynlegt að opna sérstaka Covid-19 deild fyrir smitaða íbúa hjúkrunarheimila

Verri árangur hefur náðst í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins þegar kemur að hjúkrunarheimilum að sögn forstjóra Hrafnistu. Samtök fyrirtækja í velferðaþjónustu telja nauðsynlegt að koma á fót sérstakri Covid-19 deild fyrir smitaða íbúa hjúkrunarheimila sem hafa lítil eða engin einkenni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×