Fréttir

Hitabeltisstormur ógnar Víetnam og Kambódíu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Vatnsmagnið hefur verið gríðarlegt síðustu daga og von er á meiru.
Vatnsmagnið hefur verið gríðarlegt síðustu daga og von er á meiru. Godong/Getty Images

Næstum fjörutíu hafa látið lífið í Víetnam og í Kambódíu og fjölda er saknað eftir miklar rigningar og skyndiflóð í löndunum en hitabeltisstormurinn Nangka nálgast nú strönd Víetnam. Björgunarliðar eru á meðal þeirra sem saknað er að því er fram kemur hjá Reuters fréttaveitunni.

Mikið hefur rignt það sem af er mánuðinum á svæðinu en óttast er að Nangka muni bæta í svo um muni á næstu dögum. Í Víetnam hafa um 130 þúsund íbúðarhús þegar orðið fyrir skemmdum og um 25 þúsund í Kambódíu.

Sautján verkamanna er saknað eftir mikla aurskriðu á framkvæmdasvæði í Víetnam þar sem verið er að byggja vatnsaflsvirkjun. Þrettán björgunarsveitarmenn sem sendir voru á staðinn eru einnig týndir en von er á fleiri björgunarliðum á staðinn að sögn forsætisráðherra Víetnams. Miklir vatnavextir og rigningar gera björgunarstarfið þó afar erfitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×