Innlent

Á annað hundrað í sóttkví í Garðabæ eftir smit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hofsstaðaskóli í Garðabæ er fyrir nemendur í 1. til 7. bekk.
Hofsstaðaskóli í Garðabæ er fyrir nemendur í 1. til 7. bekk. Vísir/Vilhelm

Nemendur í 1. og 2. bekk í Hofsstaðaskóla í Garðabæ eru komnir í sóttkví eftir að kórónuveirusmit sem veldur Covid-19 kom upp hjá nemanda. Þá eru starfsmenn í Regnboganum, Frístundaheimili skólans, sömuleiðis komnir í sóttkví af sömu ástæðu.

Hulda Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi Garðabæjar, segir að smitið hafi komið upp hjá nemanda um helgina. Í framhaldi af því hafi verið ákveðið að setja alla í 1. og 2. bekk ásamt starfsmönnum í úrvinnslusóttkví.

„Ákveðið var í gær eftir niðurstöður úr smitrakningu að það færu allir áfram í sóttkví fram á fimmtudaginn,“ segir Hulda. Þá fari allir í skimun.

Um er að ræða tæplega 150 nemendur og á annan tug starfsmanna.

Þá kom upp smit hjá starfsmanni í Alþjóðaskólanum í Garðabæ þar sem hópur hefur verið settur í úrvinnslusóttkví. Verið er að vinna úr því en Hulda telur líklegt að einhver hópur verði áfram í sóttkví fram að skimun.

Rask hefur orðið á starfi leikskóla í Garðabæ undanfarið. Nemendur á leikskólanum Kirkjubóli mættu aftur í skólann í dag eftir sóttkví. Þá er leikskólinn Akrar lokaður sem stendur en stefnt er á að opna í lok viku að loknu sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×