Tugir söfnuðust saman á torgi í miðborg Liverpool í gærkvöldi nokkrum klukkustundum áður en hertar aðgerðir vegna kórónuveirunnar tóku gildi.
Notuðu fæstir andlitsgrímur og sinntu ekki fjarlægðatakmörkunum, eftir því sem fram kemur í frétt á Sky News.
Myndskeiðum hefur verið deilt á samfélagsmiðlum þar sem fólk dansar, syngur og hrópar á Concert-torgi, þar sem næturlífið er jafnan hvað fjörugast í borginni.
Lögreglan skarst í leikinn og þurfti að dreifa mannfjöldanum, en margir hrópuðu ,,hjarðónæmi, hér komum við.“
Gripið hefur verið til hertra aðgerða í Bretlandi til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar og eru þær hvað mestar í Liverpool og nágrenni þar sem smitstuðullinn er mjög hár.
Læknar, sem Sky News ræddi við, voru hneykslaðir á framferði borgarbúa í gærkvöldi og töldu framferði þeirra sýna að þeim stæði á sama um alvarleg veikindi og dauðsföll vegna Covid-19.