Innlent

Mun þyngra að upp­lifa far­aldurinn að hausti en að vori

Sylvía Hall skrifar
Þórunn Sveinbjörnsdóttir.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir. Lögreglan

Eldri borgarar voru ekki undir það búnir að þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins yrði svona þung. Þetta segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara. Hún segir allt annað að fara inn í veikindabylgju að hausti til.

„Það er allt annað að upplifa þetta að hausti en að vori. Þá horfðum við inn í sumarið en nú erum við að horfa inn í skammdegið. Ég finn til dæmis mun þegar það er þungbúið yfir veðri, þá er maður lakari og maður heyrir svoleiðis sögur,“ sagði Þórunn í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Til þess að bregðast við breyttum aðstæðum í samfélaginu og hertari samkomutakmörkunum hafa mörg félög brugðið á það ráð að hringja í fólk og kanna hvernig því líður. „Það er verið að gera allt sem hægt er í sambandi við upplýsingar og annað slíkt.“

Að sögn Þórunnar er breyting á líðan eldri borgara eftir að gripið var til hertra aðgerða, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

„Já, það er breyting – það er greinileg breyting. Það er viðbót; bæði gríman og einn metri í viðbót, það breytir svo miklu. Þó við vorum ekki komin í það að knúsast þá munar miklu um þennan eina metra.“

Hún bendir fólki á ráðstefnu frá því í september síðastliðnum þar sem rætt var um einmanaleika. Ráðstefnan var tekin upp og er aðgengileg á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×