Erlent

Trump sagður reyna að hindra að­gang annarra þjóða að bólu­efni

Eiður Þór Árnason skrifar
Donald Trump fundaði á dögunum með manni sem nú hefur greinst með kórónuveiru.
Donald Trump fundaði á dögunum með manni sem nú hefur greinst með kórónuveiru. Getty/Tasos Katopodis

Bandaríkjastjórn er sögð hafa boðið þýsku heilbrigðisfyrirtæki háar fjárhæðir fyrir einkarétt á bóluefni gegn kórónuveirunni sem fyrirtækið sé með í þróun.

Breski miðilinn The Guardian greinir frá þessu og vísar í þýska dagblaðið Die Welt. Þar segir að þýsk stjórnvöld berjist nú gegn yfirtöku Bandaríkjamanna á fyrirtækinu sem beri nafnið CureVac.

Þýska blaðið hefur eftir heimildarmanni sínum að Trump vilji nú leggja allt í sölurnar til þess að tryggja bandarískum stjórnvöldum aðgang að bóluefni gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

Ef marka má heimildarmann Die Welt vill Trump að bóluefnið verði einungis notað heima fyrir og hyggst hann ekki veita öðrum ríkjum aðgang að því.

Þýsk stjórnvöld eru sögð hafa brugðist við fregnunum með því að bjóða fyrirtækinu ónefndan fjárhagslegan hvata og reyna með því að koma í veg fyrir að það færi rannsóknar- og þróunarvinnu sína til Bandaríkjanna.

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, sagði að yfirtaka Bandaríkjastjórnar á CureVac komi ekki til greina. Fyrirtækið myndi einungis þróa bóluefni fyrir alla heimbyggðina en ekki einstaka ríki.

Í yfirlýsingu frá talsmanni ráðuneytisins kemur fram að stjórnvöld í Þýskalandi hafi mikinn áhuga á þeim bóluefnum sem séu nú í þróun í Þýskalandi og Evrópu. Þau hafi í ljósi þessa verið í öflugum samskiptum við fyrirtækið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×