Fótbolti

Freyr til liðs við Heimi í Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Freyr er á leiðinni til Katar.
Freyr er á leiðinni til Katar. Vísir/Vilhelm

Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari Íslands í knattspyrnu, er í þann mund að skrifa undir hjá Al-Arabi í Katar þar sem Heimir Hallgrímsson ræður ríkjum.

Vefur DV greindi upphaflega frá. Mun Freyr halda til Katar er hann lýkur sóttkví og skrifa undir hjá félaginu. Mun Freyr vera í sama hlutverki hjá Katar og íslenska landsliðinu, það er sem aðstoðarþjálfari.

Freyr mun halda starfi sínu hjá Knattspyrnusambandi Íslands samkvæmt öllum fregnum. Eru bæði KSÍ og Al-Arabi hlynnt því.

Heimir Hallgrímsson fékk Frey meðal annars til að leikgreina andstæðinga er hann var landsliðsþjálfari. Heimir hætti með íslenska landsliðið fyrir tveimur árum síðan og í kjölfarið tók Svíinn Erik Hamrén við stjórnartaumunum með Freyr sér við hlið.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson leikur með liðinu eins og frægt er orðið. Birkir Bjarnason spilaði einnig með liðinu um tíma. Þá er Bjarki Már Ólafsson þjálfari og leikgreinandi hjá Al-Arabi.

Heimir hefur stýrt Al-Arabi síðan undir lok árs 2018. Liðið hefur farið illa af stað í deildinni og er enn án sigurs þegar þremur umferðum er lokið. Það er þó ljóst að Heimir hefur traust yfirmanna sinna fyrst hann fær áframhaldandi leyfi til að viðhalda Íslendinga nýlendunni í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×