Fótbolti

„Gúgglaði“ sjálfan sig er hann var beðinn um skilríki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcus Thuram leikur væntanlega sinn fyrsta Meistaradeildarleik þegar Borussia Mönchengladbach mætir Inter á San Siro í kvöld.
Marcus Thuram leikur væntanlega sinn fyrsta Meistaradeildarleik þegar Borussia Mönchengladbach mætir Inter á San Siro í kvöld. getty/Christian Verheyen

Marcus Thuram, leikmaður Borussia Mönchengladbach, brá á það ráð að „gúggla“ sjálfan sig er hann var spurður um skilríki við komuna á San Siro í Mílanó þar sem hans þýska liðið mætir Inter í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Aðspurður um skilríki dró Thuram upp símann sinn og sló nafnið sitt inn á Google leitarvélina eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan.

Thuram sló í gegn með Gladbach á síðasta tímabili. Hann skoraði þá tíu mörk í 31 leik í þýsku úrvalsdeildinni og átti stóran þátt í því að Gladbach vann sér sæti í Meistaradeildinni.

Þótt Thuram sé ágætlega þekktur er hann ekki jafn frægur og pabbi sinn, Lillian Thuram sem varð heims- og Evrópumeistari með franska landsliðinu um aldamótin. Marcus Thuram fæddist í Parma á Ítalíu 1997 þegar faðir hans lék þar.

Thuram hóf ferilinn með Sochaux en fór til Guingamp 2017. Eftir tvö tímabil þar keypti Gladbach hann á tólf milljónir evra. Thuram hefur alls leikið 43 leiki með Gladbach og skorað fimmtán mörk.

Leikur Gladbach og Inter hefst klukkan 19:00 í kvöld. Auk þeirra eru Real Madrid og Shakhtar Donetsk í B-riðli Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×