Fimm sjúklingar og fimm starfsmenn á Reykjalundi hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. Tveir starfsmenn Reykjalundar greindust í gær með veiruna og störfuðu þeir báðir á sólarhringsdeild Reykjalundar, Miðgarði.
Allir sjúklingar og hópur starfsmanna fóru samstundis í sóttkví að því er kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi og greindust fimm sjúklinganna smitaðir. Einn þeirra er með einkenni Covid-veikinda. Sjúklingarnir verða af öryggisástæðum sendir af Reykjalundi á Covid-göngudeild Landspítalans síðar í kvöld. Þrír starfsmenn til viðbótar greindust einnig.
Því hafa fimm sjúklingar og fimm starfsmenn á Reykjalundi greinst með veiruna undanfarna tvo sólarhringa. Þar að auki hafa 19 starfsmenn til viðbótar á Reykjalundi verið sendir í sóttkví auk þeirra sjúklinga sem verða eftir á deildinni Miðgarði.
Fram kemur i tilkynningunni að ekki sé ljóst hvaðan smitið barst á deildina.
„Við sjúklinga okkar og aðstandendur þeirra vil ég harma þau óþægindi sem þetta ástand og ráðstafanir því tengdu hafa í för með sér,“ skrifar Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar í tilkynningunni.