Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir segir augljóst að Svíar hafi lagt mikla áherslu á að stöðva Glódísi Perlu Viggósdóttur þegar Íslendingar voru með boltann í leik liðanna í undankeppni EM í gær. Svíþjóð vann leikinn með tveimur mörkum gegn engu og tryggði sér þar með sæti á EM.
„Þær settu alltaf pressu á Glódísi með boltann og leyfðu Ingibjörgu [Sigurðardóttir] að hafa hann. Þær pressa hana ekki neitt og þetta er alveg greinilega upplegg hjá Svíunum að leyfa henni að hafa boltann því flestar sendingarnar voru svona,“ sagði Bára undir myndbroti af slakri sendingu frá Ingibjörgu.
Glódís hefur leikið í Svíþjóð frá 2015 og er þekkt stærð í fótboltanum þar í landi.
„Maður sá þetta líka svolítið í fyrri leiknum. Þær vilja loka á Glódísi og þekkja að hún er góð með boltann,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.
„Þetta gerði okkur erfitt fyrir en við eigum samt að geta krafist þess að fá aðeins betri sendingar fram á við,“ bætti Bára við.
Greiningu þeirra Báru og Margrétar Láru má sjá hér fyrir neðan en þar er m.a. farið yfir mörkin tvö sem íslenska liðið fékk á sig í leiknum í gær.