Erlent

Frakkar skella í lás í annað sinn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti um hertar aðgerðir í sjónvarpsávarpi í kvöld.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti um hertar aðgerðir í sjónvarpsávarpi í kvöld. EPA/Ian Langsdon

Hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins í Frakklandi munu gilda út nóvember. Þá hafa þýsk stjórnvöld jafnframt ákveðið að grípa til frekari aðgerða. Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti um hertar aðgerðir í kvöld sem taka eiga gildi á föstudaginn en í annað sinn frá því að faraldurinn hófst verður samfélaginu svo gott sem skellt í lás í Frakklandi.

Samkvæmt nýjum reglum verða íbúar Frakklands hvattir til að halda sig heima nema í algjörum undantekningartilfellum, svo sem til að sinna nauðsynlegri starfsemi eða af heilbrigðisástæðum. Veitingahúsum og börum verður gert að loka en skólar verða opnir áfram auk þess sem verksmiðjur mega halda áfram starfsemi að því er segir í frétt BBC.

Í gær greindust um 33 þúsund með covid-19 en undanfarna daga hefur tala látinna farið hækkandi en daglegur fjöldi látinna af völdum sjúkdómsins nú er sá mesti síðan í apríl. Macron segir þá stöðu blasa við að þessi önnur bylgja faraldursins í Frakklandi verði mun erfiðari við að eiga en þá fyrri.

Þá greindi Angela Merkel Þýskalandskanslari frá því fyrr í dag að Þjóðverjar verði að grípa til tafarlausra aðgerða. Kallaði hún eftir „meiriháttar samhentu átaki þjóðarinnar“ til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins.

Ekkert lát hefur verið á útbreiðslu veirunnar í Evrópu að undanförnu. Útgöngubann hefur verið sett á sem gildir á kvöldin og á nóttunni í nokkrum ríkjum, þar á meðal í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×