Innlent

Næstum tvö hundruð smitaðir í hópsýkingum á Landakoti og í Ölduselsskóla

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Alls hafa nú um 140 tilfelli kórónuveirunnar verið rakin til Landakots, auk þess sem um fjörutíu manns hafa greinst í tengslum við sýkingu sem komið hefur upp í Ölduselsskóla. Sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af því að samfélagssmit hafi færst í aukana undanfarið.

Af þeim 140 sem greinst hafa út frá Landakoti eru níutíu á Landakoti, sjö á Reykjalundi og 24 á Sólvöllum. Smitaðir með óbein tengsl eru 21. „Og það er það sem við höfum áhyggjur af,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag. Þá eru um 300 í sóttkví vegna hópsýkingarinnar á Landakoti.

Þórólfur nefndi einnig að sýking hefði komið upp í Ölduselsskóla en þar hafa 44 greinst með veiruna, flestir nemendur. Þá hafa verið staðfest tengd smit út fyrir skólann.

Litlar hópsýkingar hafa enn fremur komið upp síðustu daga. Þær tengjast t.d. fjölskyldum, veislum, vinnustöðum og íþróttum, að sögn Þórólfs. Hann sagðist hafa áhyggjur af því að ekki væri að takast að ná tökum á samfélagslegu smiti.

„Staðan á innanlandssmitum er nokkuð stöðug en vonir höfðu verið bundnar við það að samfélagssmitum myndi fækka meira en raun ber vitni. Og reyndar hafa samfélagssmit heldur færst í vöxt undanfarna daga og það er ákveðið áhyggjuefni,“ sagði Þórólfur.


Tengdar fréttir

42 greindust innan­lands í gær

Alls greindust 42 með kórónuveiruna innan­lands í gær. 52 prósent þeirra sem greindust voru í sóttkví.

Ekki talin þörf á útgöngubanni

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að ekki sé talin þörf á útgöngubanni hér á landi þrátt fyrir þá alvarlegu stöðu sem uppi er vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×