Íslendingaliðið Strömgodset í Noregi er komið allt í sóttkví eftir að unglingaliðsmaður félagsins greindist með kórónuveirusmit.
Strömgodset segir frá þessu á heimasíðu sinni í dag og þar kemur fram að allir leikmenn aðalliðsins séu komnir í sóttkví til 16. nóvember næstkomandi.
Leikmenn þurfa að bíða í tíu daga eftir síðustu samskipti sín við umræddan unglingaliðsleikmann en þeir verða líka allir sendir í kórónuveirupróf á næstu dögum.
Tveir íslenskir leikmenn leika með liði Strömgodset en það eru þeir Ari Leifsson og Valdimar Þór Ingimundarson.
Sá sem smitaðist æfði síðast með aðalliðinu á föstudaginn og fór síðan í prófið á sunnudagskvöldið. Hann er nú kominn í tíu daga einangrun. Leikmaðurinn er einkennalaus.
Leikmaðurinn fór í smitprófið af því að hann hafði átt samskipti við persónu sem var komin með kórónuveiruna.
Strömgodset spilar ekki næst fyrr en 22. nóvember þar sem nú er landsleikjagluggi.
Valdimar Þór Ingimundarson er í íslenska 21 árs landsliðinu sem mun spila þrjá leiki á næstu dögum en það á eftir að koma í ljós hvort þessar fréttir hafa áhrif á hans þátttöku í þeim leikjum.