Ekki hafa komið upp tilfelli riðu í sauðfé á fleiri bæjum í Skagafirði. Enn er þó verið að taka sýni í landshlutanum og raunar landinu öllu.
Þetta segir Jón Kolbeinn Jónsson héraðsdýralæknir í samtali við Vísi. „Stundum er það þannig að engar fréttir eru góðar fréttir.“

Hann segir að alltaf sé verið að fá niðurstöður úr sýnatökum. „Við erum að taka sýni alla daga, líka burtséð frá þessu máli. Við höldum bara áfram okkar kortlagningu og eftirliti.“
Riða greindist í haust á fjórum bæjum í Skagafirði og hefur síðustu daga verið unnið að niðurskurði og urðun fjársins.
Einhver hluti var sendur til brennslustöðvar Kölku í Helguvík á Reykjanesi, en undanþága var svo veitt til að notast við aflagðan urðunarstað við Skarðsmóa í Skagafirði.
Heildarfjöldi fjár sem þarf að farga vegna riðunnar er um þrjú þúsund.