Skoðun

Tíma­mót með byggingu nýs neyðar­at­hvarfs fyrir konur og börn

Ásmundur Einar Daðason skrifar

Það var mjög ánægjulegt að skrifa í vikunni undir samning við Samtök um kvennaathvarf um 100 milljón króna fjárveitingu sem ætlað er að styðja við byggingu nýs neyðarathvarfs í Reykjavík og styrkja þjónustu athvarfsins vegna áhrifa kórónaveirunnar. Kvennaathvarfið hefur um áratugaskeið unnið ómetanlegt starf og veitt þjónustu, ráðgjöf og stuðning til fjölda kvenna og barna vegna kynferðisofbeldis, ofbeldis í nánum samböndum og heimilisofbeldis.

Mikil þörf er á að bæta aðstöðu Kvennaathvarfsins til að það geti sinnt hlutverki sínu enn betur. Nýtt neyðarathvarf sem Samtök um kvennaathvarf munu reisa verður fyrsta sérhannaða húsnæðið sem byggt er undir neyðarathvarf á Íslandi. Verkefnið er unnið í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg sem úthlutað hefur lóð undir húsnæðið. Með tilkomu þess munu Samtök um kvennaathvarf tvöfalda húsnæði neyðarathvarfsins sem gerir þjónustu og faglega aðstoð í kjölfar ofbeldis mun aðgengilegri fyrir konur og börn þeirra.

Þá verður fjármununum einnig varið í viðgerðir og endurbætur á núverandi neyðarathvarfi, framkvæmdir og byggingu nýs áfangaheimilis, en samtökin munu opna áfangaheimili sumarið 2021 sem er ætlað að verða 2. stigs úrræði fyrir konur og börn sem hafa dvalið í athvarfinu og eru tilbúin til að hefja nýtt líf á nýjum stað. Um er að ræða 18 íbúða hús sem nú er í byggingu með stuðningi Reykjavíkurborgar, ríkisins og almennings. Húsið er hannað samkvæmt reglum um aðgengi en til að tryggja að húsið uppfylli skilyrði um algilda hönnun þarf að fara í ákveðnar breytingar, sem nú verður ráðist í.

Í sumar opnaði einnig neyðarathvarf fyrir konur á Akureyri en það verður starfrækt í tilraunaskyni til 30. apríl 2021. Samtök um kvennaathvarf og Bjarmahlíð - þjónustumiðstöð við þolendur ofbeldis standa að rekstri neyðarathvarfsins í samvinnu við sveitarfélög á Norðurlandi eystra, félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Aðgengi að öruggu skjóli, faglegri þjónustu og ráðgjöf í sinni heimabyggð er gríðarlega mikilvægt fyrir konur á Norðurlandi sem lenda í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að flýja heimili sitt vegna ofbeldis. i

Við í ríkisstjórninni erum stolt af því að styðja við byggingu á nýju neyðarathvarfi sem er sérstaklega hannað sem slíkt og á eftir að nýtast vel í því mikilvæga starfi sem Samtök um kvennaathvarf sinna í þágu kvenna og barna sem búa við heimilisofbeldi. Með nýjum og bættum húsakosti sköpum við tækifæri fyrir allar konur og börn þeirra til þess að öðlast nýtt og betra líf á nýjum stað – án ofbeldis.

Höfundur er félags- og barnamálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×