Erlent

Ferða­lög innan­lands bönnuð í Portúgal fyrir jólin

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Portúgalar hafa verið hvattir til að takmarka ferðalög milli landshluta fyrir jólin.
Portúgalar hafa verið hvattir til að takmarka ferðalög milli landshluta fyrir jólin. EPA-EFE/Jose Sena Goulao

Portúgölsk yfirvöld hafa ákveðið að banna ferðalög innanlands og loka öllum skólum í kring um tvo hádegisdaga í von um að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar fyrir jólin. Antonia Costa forsætisráðherra landsins kynnti aðgerðirnar í dag.

Ferðalög milli sveitarfélaga verða bönnuð á milli klukkan 23 þann 27. nóvember og fimm að morgni þann 2. desember. Þá verða ferðalög einnig bönnuð á milli klukkan ellefu að kvöldi þann 4. desember og fimm að morgni þann 9. desember. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að fólk ferðist á milli landshluta 1. og 8. desember sem eru hátíðisdagar í Portúgal.

Skólar munu loka mánudagana fyrir hátíðisdagana og fyrirtæki munu þurfa að loka snemma. Fyrirtæki hafa verið hvött til að gefa starfsmönnum sínum frí til þess að minnka ferðalög innan sveitarfélaga.

Grímuskylda er þegar í gildi á almenningsfæri og í lokuðum almenningsrýmum og eru grímur nú einnig skyldugar á vinnustöðum. Þá mun útgöngubann sem hefur verið í gildi eftir klukkan 1 á nóttunni og um helgar í 191 sveitarfélagi verða áfram í gildi í þeim 174 sveitarfélögum sem hafa greint hvað flest smit undanfarnar tvær vikur.

Í gær greindust 6.472 smitaðir af kórónuveirunni í Portúgal og 62 létust. Langflest tilfellin voru í norðurhluta Portúgal en nú hafa alls 255.970 greinst frá upphafi faraldursins og rúmlega 3.800 látist.

Mikil aukning hefur orðið í greiningu smita í Portúgal frá því í september.

Ástandið er ekki betra í Frakklandi, þar sem smitum hefur fjölgað gríðarlega undanfarnar vikur. Í gær greindust 17.881 en daginn áður greindust 22.882. Þá greindu heilbrigðisyfirvöld frá því að 276 hafi látist í gær vegna veirunnar en 386 létust daginn þar áður. Nú hafa 48.518 látist af völdum veirunnar í Frakklandi, þar af 33.231 á sjúkrahúsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×