Að undanförnu hefur borið á gagnrýni í fjölmiðlum á félagshagfræðilega greiningu á fyrsta fasa Borgarlínu sem finna má í fimm ára samgönguáætlun Alþingis og er jafnframt hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Hafa forsendur greiningarinnar, aðferðafræði og réttmæti niðurstöðunnar verið dregnar í efa en niðurstöður greiningarinnar draga fram að Borgarlínuverkefnið er þjóðfélagslega arðbært og að með tilkomu Borgarlínunnar verður almenn bílaumferð minni en hún hefði ella orðið
Af gagnrýnendum má helst skilja að beita hefði átt annarri aðferðarfræði við að meta þjóðhagslega arðsemi verkefnisins, að þau viðmið sem horft sé til séu ekki sniðin að íslenskum aðstæðum og að arðsemiskrafan sé óeðlileg. Að mati þessarar aðila gefur niðurstaða félagshagfræðilegu greiningarinnar því ekki rétta niðurstöður. Rétt er að koma eftirfarandi á framfæri.
Í samræmi við alþjóðlega staðla og tryggir faglegheit við ákvarðanatöku
Frá því að Borgarlínuverkefnið var sett á dagskrá árið 2015 hefur verið stefnt að því að nýta slíka greiningu til að meta arðsemi verkefnisins. Er það í samræmi við ábendingar OECD um að forgangsröðun fjárfestinga í innviðum sé ábótavant á Íslandi og gera þurfi átak í þeim efnum. Sú félagshagfræðilega greining sem beitt er á Borgarlínuverkefnið fylgir leiðbeiningum Evrópusambandsins og OECD en gerð er krafa um slíkar greiningar ef leitað verður fjármögnunar utan landssteinanna fyrir verkefnið.
Vandað var til verka
Verkefnið var tengt gerð nýs fjölferðamáta samgöngulíkans og var lögð áhersla á að fylgja alþjóðlegri og staðlaðri aðferðafræði við mat á kostnaði og ábata en slíkt er mikilvægt til að hægt sé að bera Borgarlínuna saman við önnur sambærileg verkefni. Það er ekki svo að Verkefnastofa Borgarlínu eða þeir ráðgjafar sem unnu félagshagfræðilegu greininguna hafi handvalið þá kostnaðar- og ábataþætti eða aðferðaferðafræði sem metnir voru, eins og skilja má á þeim sem hafa gagnrýnt niðurstöðurnar og lýst miklum efasemdum um verkefnið.
Til að meta arðsemina var TERESA líkaninu beitt. Það var þróað af dönskum samgönguyfirvöldum og Vegagerðin hefur lagað það að íslenskum aðstæðum. Líkaninu hefur áður verið beitt á samgönguverkefni hérlendis og er ætlunin að halda því áfram.
Næmnigreinin er notuð til að gera grein fyrir áhrifum óvissu í undirliggjandi forsendum, eins og tíðkast fyrir verkefni á fyrstu stigum. Farið var í einu og öllu eftir alþjóðlega staðlaðri aðferðarfræði og viðurkennt reiknilíkan notað sem samgönguyfirvöld hafa nýtt í öðrum verkefnum.
Spyrja má hvort gagnrýnin hefði ekki verið mun meiri og alvarlegri sú væri ekki raunin?
Höfundur er forstöðumaður verkefnastofu Borgarlínu.