Til átaka kom á þingi Taívan í Taípei í dag og slógust þingmenn og köstuðu svínaiðrum í hvorn annann á þingi. Deilurnar eru til komnar vegna reglubreytinga um að leyfa innflutning svína- og nautakjöts frá Bandaríkjunum.
Su Tseng-chang, forsætisráðherra, ætlaði að flytja ræðu um frumvarpið þegar stjórnarandstöðuþingmenn komu í veg fyrir það með því að hella úr fötum af svínaiðrum í þinghúsinu.
Meðlimir meirihlutans reyndu að stöðva þá og kom til handalögmála þeirra á milli.
AP fréttaveitan segir forseta Taívan hafa samþykkt þessa breytingu í ágúst og að mögulega sé um undirbúning fyrir viðskiptasamning við Bandaríkin að ræða. Til stendur að fella niður bann á innflutningi svína- og nautakjöts frá Bandaríkjunum í janúar.
Þá verður innflutningur kjöts sem inniheldur efnið ractopamine leyfilegur. Það efni er bannað í matvælaframleiðslu víðsvegar um heiminn og þar á meðal í Evrópusambandinu.
Þeirri ákvörðun hefur verið harðlega mótmælt. Meðlimir stjórnarandstöðunnar mættu á þing í svörtum bolum í dag sem á stóð: „Standið gegn ractopamine-svínakjöti“.