Erlent

Óvissa um eiganda typpis gerir lögreglu erfitt fyrir við rannsókn

Samúel Karl Ólason skrifar
Typpið stóð í 1.738 metra hæð á fjallinu Grünten í Þýsklandi.
Typpið stóð í 1.738 metra hæð á fjallinu Grünten í Þýsklandi. Getty/Karl-Josef Hildenbrand

Lögreglan í Þýskalandi rannsakar nú það hvernig stærðarinnar timburtyppi hvarf af fjalli, þar sem typpið birtist óvænt fyrir nokkrum árum. Útlit er fyrir að typpið hafi verið sagað niður um miðja nótt um helgina.

Typpið stóð í 1.738 metra hæð á fjallinu Grünten í Þýsklandi. Þegar fjallgöngumenn fóru upp fjallið eftir helgina fundu þeir ekkert nema botninn á styttunni og fullt af sagi. Typpið var um tveggja metra hátt og um 200 kíló að þyngd svo það hefur eflaust verið örðugt verk að koma því niður af fjallinu. 

Héraðsmiðillinn Allagaeuer Zeitung segir lögregluna hafa byrjað að rannsaka málið í gær.

Hins vegar sé ekki ljóst hvort að um skemmdarverk sé að ræða.

Timburtyppastyttan birtist á fjallinu seint á árinu 2017 og enginn veit í rauninni hver gerði styttuna og kom henni fyrir. Ef sami aðili og kom styttunni fyrir sótti hana um helgina, þá segir lögreglan ljóst að ekki sé um glæp að ræða.

Hins vegar, ef einhver annar hafi farið á fjall, sagað typpið niður og tekið það, þá sé væntanlega um skemmdarverk og þjófnað að ræða. Það veltur því á því hver eigandi typpisins var, hvort glæpur hafi verið framinn.

Í frétt Guardian segir að typpið hafi fallið á hliðina fyrir nokkrum vikum en það hafi verið fært í fulla reisn á nýjan leik með hröðum handtökum heimamanna. Þá hafi bjór nýverið verið nefndur eftir styttunni.


Tengdar fréttir

Dularfulla súlan er horfin

Hin dularfulla málmsúla sem fannst nýverið í eyðimörk Utah í Bandaríkjunum hefur verið fjarlægð. Embættismenn segjast ekki vita hver fjarlægði súluna sem talið er að hafi verið listaverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×