Á Hvilftarströnd við ána Kaldá innan við Flateyri er nýlega risin lítil vatnsaflsvirkjun, sú þriðja sem Önfirðingarnir Birkir Þór Guðmundsson frá Ingjaldssandi og Ásgeir Mikkaelsson úr Breiðadal standa að, en stöðina mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.
„Við reistum hér tvær virkjanir í Önundarfirði 2018 og svo í Skutulsfirði, í Dagverðardal, 2019,“ segir Birkir Þór og bætir við að sú fjórða sé í bígerð í Gilsfirði.

Vatnsaflstöðin við Kaldá framleiðir allt að 400 kílóvött sem samsvarar orkuþörf um fimmtíu heimila og hinar eru litlu minni.
„Við höfum þá trú að þessar virkjanir okkar á svæðinu geri ekkert annað en að styrkja hér raforkuöryggi inni í fjórðungnum.“
Okkur finnst athyglisvert að Önfirðingarnir Birkir og Ásgeir hafi alfarið snúið sér að orkubúskap.

„Ásgeir félagi minn var bæði með sauðfé og kýr – var kúabóndi með myndarlegt kúabú á þeirra tíma mælikvarða.
Ég bjó svo úti á Ingjaldssandi og var með loðdýr, af öllu, þar. Karl faðir minn bjó líka á Hrauni og var með sauðfjárbúskap,“ segir Birkir.
Og það er stór munur að vera raforkubóndi.
„Það er dálítið einfaldara þegar þetta er farið að snúast. Það þarf lítið að smala,“ svarar Birkir Þór.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fjallað var um síðasta bóndann á Ingjaldssandi í tveimur þáttum á Stöð 2 árið 2014.
Fyrri þáttinn má sjá hér:
Síðari þáttinn má sjá hér: