Skoðun

Útgöngubann – aldrei án aðkomu Alþingis

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Ég skaust með grímuna út í Fjarðarkaup um daginn. Einu sinni sem oftar. Þegar ég kem að kjötborðinu stoppar maður mig með glaðsinna augu og grímuna á sínum stað og spyr hvernig það sé að vera á þingi á þessum tímum. Þótt margt sé skrýtið á Alþingi, líkt og á öðrum vinnustöðum, segi ég honum að mér finnist þingmenn allra flokka, sem starfsfólk leggi sig fram. Þingmenn séu að vanda sig, svona oftast nær þótt það þýði ekki endilega að allt sé í lagi. Þessi maður sagðist lítið erindi hafa annað en að árétta tortryggni sína þegar kæmi að útgöngubanninu, sem ríkisstjórnin hefði boðað að gera að lögum. Eins og það væri verið að smygla inn einhverju skrýtnu á þessum tímum. Að því búnu kvaddi hann vinsamlega og ég kláraði kaupin.

Þetta er ekki eini einstaklingurinn sem rætt hefur við mig um tillögu ríkisstjórnar um að setja heimildaákvæði um útgöngubann en áhyggjurnar eru eðlilegar. Og á að taka alvarlega. Sjálf sé ég ekki knýjandi þörf á að setja svona íþyngjandi ákvæði í lög þegar meira en þokkalega hefur gengið að berjast við veiruna, með þeim tólum og tækjum sem nú eru í gildandi lögum. Almenningur hefur staðið sig vel í stórum dráttum samkvæmt núgildandi lögum undir forystu sóttvarnaryfirvalda.

En þar fyrir utan þá þarfnast svona afdrifaríkt og þungbært úrræði yfirvegunar og gaumgæfilegrar skoðunar. Því þetta er meiriháttar inngrip. Það er sjálfsagt að ræða þetta en að setja slíkt ákvæði í miðjum faraldri er kannski ekki besti tíminn þegar varnarmúr persónufrelsis er hvað veikastur fyrir.

Mér hefur þótt það sérstakt að frumvarp ríkisstjórnarinnar sem inniheldur útgöngubann og er nýlunda í íslenskri stjórnsýslu, hafi farið nokkuð óáreitt í gegnum stjórnarflokkanna. Þrátt fyrir alla frelsispostulanna. Það er mitt mat að þessari tillögu þarf að breyta. Ef sérfræðingar telja slíkt ákvæði um útgöngubann nauðsynlegt í lögum, ákvæði sem er stórkostlegt inngrip inn í einstaklingsfrelsið, þá verður að tryggja að því verði aldrei beitt án aðkomu Alþingis. Aldrei. Löggjafarþingið hefur sýnt að þegar miklir hagsmunir eru undir er það fljótt til. Nægir að benda á neyðarlögin í því efni. Engin ástæða er að gera annað en miklar kröfur til stjórnvalda ef beita á útgöngubanni. Annað væri ógn við samfélagsgerðina, lýðræði okkar og frelsi.

Höfundur er formaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×