Innlent

Tveir eig­endur og verk­stjóri Plast­gerðarinnar á­kærðir vegna bana­slyss

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Héraðssaksóknari Reykjaness hefur ákært mennina þrjá fyrir manndráp af gáleysi eða hlutdeild í manndrápi að gáleysi. 
Héraðssaksóknari Reykjaness hefur ákært mennina þrjá fyrir manndráp af gáleysi eða hlutdeild í manndrápi að gáleysi.  Vísir/Vilhelm

Þrír menn sem starfa sem yfirmenn í Plastgerð Suðurnesja hafa verið ákærðir af héraðssaksóknara fyrir manndráp af gáleysi eða hlutdeild í manndrápi af gáleysi eftir að undirmaður þeirra lést í vinnuslysi í Plastgerðinni í júlí 2017.

 Samkvæmt ákærunni hafði öryggisbúnaður á vinnuvél sem maðurinn starfaði við verið gerður óvirkur sem leiddi til þess að Pawel Giniewicz klemmdist í vélinni við gangsetningu hennar og dó í kjölfarið.

Einn yfirmannanna, sem er verkstjóri hjá verksmiðjunni, er ákærður fyrir manndráp af gáleysi og brot gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hinir mennirnir tveir, annar er framkvæmdastjóri og hinn verkstjóri en báðir eru eigendur verksmiðjunnar, hafa verið ákærðir fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi og brot gegn lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Framkvæmdastjórinn er einnig ákærður fyrir að hafa gefið fyrirmæli um að gangsetja allar vélarnar í vinnslusal Plastgerðarinnar.

Fram kemur í ákærunni að einn ákærðu hafi miðvikudaginn 21. júlí 2017 gert öryggisbúnað frauðpressuvélar óvirkan vitandi það að starfsmenn Plastgerðarinnar fóru reglulega inn í vélina til þess að hreinsa hana og síðan gangsett vélina sem hafði verið stöðvuð án þess að gæta að því hvort einhver væri inni í vélinni. Maðurinn er sagður ekki hafa upplýst alla starfsmenn fyrirtækisins um að öryggisbúnaður vélarinnar hafi verið óvirkjaður. Við gangsetningu hafi Pawel svo klemmst á milli móta vélarinnar og látist af áverkum sem hann hlaut við það.

Pawel var pólskur og hafði búið á Íslandi í nokkur ár þegar hann lést. Hann var fæddur árið 1985 og var hann 32 ára þegar hann dó.

Móðir Pawels og bróðir hans hafa krafist þess að hinir ákærðu greiði þeim miska- og skaðabætur. Móðir Pawels hefur krafist 3.071.911 króna í miska- og skaðabætur ásamt vöxtum en bróðir hans 1,5 milljónar í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×