Fótbolti

Ís­lands­baninn Szoboszlai skiptir um orku­drykkjar­lið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dominik Szoboszlai mun leika listir sínar í þýsku úrvalsdeildinni árið 2021.
Dominik Szoboszlai mun leika listir sínar í þýsku úrvalsdeildinni árið 2021. EPA-EFE/JUANJO MARTIN

Dominik Szoboszlai mun ganga í raðir RB Leipzig í janúar. Gangi það eftir verður hann einn fjölda leikmanna sem hafa farið þá leið að skipta úr einu Red Bull-liðinu yfir í annað.

Szoboszlai skoraði sigurmark Ungverjalands gegn Íslandi í úrslitaleik um sæti á EM sem fram fer næsta sumar og er með eftirsóttari leikmönnum Evrópu. 

Hann er sem stendur leikmaður Red Bull Salzburg í Austurríki en RB Leipzig – sem er einnig í eigu orkudrykkja framleiðandans Red Bull – mun kaupa þennan tvítuga leikmann á 25 milljónir punda þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar.

Szoboszlai hefur verið orðaður við bæði Arsenal á Englandi og AC Milan á Ítalíu en virðist nú vera í þann mund að skrifa undir fimm ára samning við lærisveina Julian Nagelsmann.

Gangi vistaskiptin eftir þá er sá ungverski að feta í fótspor leikmanna á borð við landa síns Peter Gulacsi, Dayot Upamecano, Amadou Haidara, Hannes Wolfs og Naby Keïta.

Um er að ræða stórt stökk upp á við fyrir Saboszlai en Leipzig er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu ásamt því að vera í toppbaráttunni í þýsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×