Erlent

Svíar og Frakkar loka á Bretland

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikael Damberg er innanríkisráðherra Svíþjóðar.
Mikael Damberg er innanríkisráðherra Svíþjóðar. Dursun Aydemir/Anadolu Agency via Getty

Svíþjóð og Frakkland hafa bæst í hóp þeirra Evrópuríkja sem hafa sett takmörk á eða bannað alfarið samgöngur frá Bretlandi vegna nýs afbrigðis kórónuveiru sem dreifst hefur um Bretland, og er talið meira smitandi en önnur afbrigði.

Í frétt sænska ríkisútvarpsins er haft eftir Mikael Damber, innanríkisráðherra Svíþjóðar, að hann vonist til að bann við samgöngum frá Bretlandi til Svíþjóðar muni taka gildi sem allra fyrst.

Þá segir í fréttinni að ekki liggi fyrir hvernig bannið verði nákvæmlega útfært. Það muni þó taka til samgangna á vegum, sjó og í lofti. Gert er ráð fyrir að það verði formlega tilkynnt og taki gildi á morgun.

Þó verði ekki hægt að banna sænskum ríkisborgurum að koma til landsins, en mesta óvissan um útfærslu reglnanna snýr einmitt að þeim. Það kann að fara svo að Svíar sem koma frá Bretlandi muni þurfa að sæta sóttkví við komuna til landsins, að því er fram kemur í frétt SVT.

Frakkar loka í tvo sólarhringa

Eins og áður sagði hafa Frakkar einnig lokað á samgöngur frá Bretlandi. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að bannið muni taka gildi á miðnætti, og gilda í 48 klukkustundir. Frönsk yfirvöld segja þann tíma vera nægan til þess að Evrópulönd geti komið sér saman um samhæfð viðbrögð við vendingum í Bretlandi.

Áður höfðu Írland, Ítalía, Holland og Belgía öll lokað á samgöngur frá Bretlandi. Á morgun munu fulltrúar Evrópusambandsríkja funda um næstu skref, með það fyrir augum að samhæfa viðbrögð aðildarríkja.


Tengdar fréttir

„Við erum ekkert að fara á taugum yfir þessu núna“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki hafa komið til skoðunar að leggja til að gripið verði til sérstakra ráðstafana vegna nýs afbrigðis kórónuveirunnar sem komið hefur upp í Bretlandi, og er talið meira smitandi en önnur afbrigði.

Banna flug frá Bret­landi vegna nýja af­brigðisins

Nokkur Evrópulönd hafa gripið til þeirra ráða að banna samgöngur frá Bretlandi og hefur flugi til að mynda verið aflýst. Er þetta gert vegna þess nýja afbrigðis kórónuveirunnar sem hefur fundist í Bretlandi og er talið vera sjötíu prósent meira smitandi en önnur afbrigði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×