Dagurinn í dag, 17. mars, er afar mikilvægur fyrir fótboltann í Evrópu. Þá verður nefnilega fundað um hvað gera skuli við Evrópumót karla sem á að fara fram í sumar og Meistara- og Evrópudeildina sem hafa verið settar á ís vegna kórónuveirunnar.
Á tímum kórónuveirunnar þykir ekki skynsamlegt að margir komi saman undir sama þaki og því verður notast við fjarfundarbúnað. Á fundinum, sem hefst klukkan 13:00 að íslenskum tíma, verða fulltrúar allra 55 aðildarríkja UEFA, þ.á.m. Íslands, og aðrir hagsmunaaðilar.
EM alls staðar átti að fara fram 12. júní til 12. júlí en nánast engar líkur eru á að svo verði. Rætt hefur verið um að færa EM til loka þessa árs eða fram á næsta sumar. Í viðtali í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, að sér hugnaðist seinni kosturinn betur.
„Ég er hrifnari af því að fara með þetta fram á næsta sumar, upp á undirbúninginn, tíðarfarið og stemmninguna í kringum keppnina,“ sagði Guðni.
Einn hængur er þó á því færa EM fram á næsta sumar því þá fer EM kvenna fram í Englandi. Undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikurinn á EM karla áttu að fara fram á Wembley og það kallar því á tilfæringar.
Á fundi UEFA verður einnig ákveðið hvenær eða hvort umspilið fyrir EM fari fram. Ísland átti að mæta Rúmeníu á Laugardalsvelli 26. mars. Fimm dögum síðar átti sigurvegarinn að mæta annað hvort Búlgaríu eða Ungverjalandi.
Rætt hefur verið um að nýta tímann þegar EM átti að fara fram til að ljúka leikjum í umspili, klára Meistara- og Evrópudeildina og vetrardeildirnar í Evrópu. Þá hefur sú hugmynd að sleppa umspilinu og hafa 20 lið á EM í stað 24 einnig verið nefnd. Það hugnast Íslendingum alls ekki.
Keppni var í Meistara- og Evrópudeildinni var hætt í 16-liða úrslitum. Á fundinum verður rætt hvernig, eða hvort, eigi að klára þessar keppnir. Meðal hugmynda sem fram hafa komið er að aðeins einn leikur verði í 8-liða úrslitum keppnanna og undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikurinn myndu fara fram í sömu borg. Það yrði þá eins konar úrslitahelgi eins og þekkt er í handbolta.
Spurningarnar eru margar og vonandi fást svör við þeim eftir fundinn í dag.