Fótbolti

Svíar fresta fótboltatímabilinu um tvo mánuði: Hvað gerir KSÍ?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Systurnar Elísa og Margrét Lára Viðarsdætur með Íslandsmeistarabikarinn sem Valur vann í fyrsta sinn síðan 2010. Það verður bið á því að titilvörnin hefjist.
Systurnar Elísa og Margrét Lára Viðarsdætur með Íslandsmeistarabikarinn sem Valur vann í fyrsta sinn síðan 2010. Það verður bið á því að titilvörnin hefjist. vísir/daníel

Knattspyrnusamböndin á Norðurlöndum eru farin að færa til tímabilið sitt og má búast við svipuðum aðgerðum hér á Íslandi.

Sænska knattspyrnusambandið hefur nú tekið þá ákvörðun að seinka keppnistímabili sínu um tvo mánuði.

Allar efstu deildirnar komust að samkomulagi um það að fyrsta umferð þeirra fari ekki fram fyrr en í lok maí eða í byrjun júní.

Fyrstu leikirnir á sænska fótboltatímabilinu áttu að fara fram 3. til 6. apríl næstkomandi þegar keppni átti að hefjast í Allsvenskan og Superrettan hjá körlum og konum.

„Aðildarfélögin í Svensk Elitfotboll tóku í dag ákvörðun á sérstökum aukafundi um að upphaf úrvalsdeildanna og B-deildanna skyldi frestast þar til í byrjun júní, í síðasta lagi, vegna kórónuveirunnar. Sænska knattspyrnusambandið mun nú fara yfir óskir félaganna og ákveða end­anlega nýja leikjadagskrá," segir í yfirlýsingu á heimasíðu sænska sambandsins.

Pepsi Max deild karla átti að hefast 22. apríl og hinar deildirnar á Íslandi i kringum mánaðamótin. Fyrsti leikur í Pepsi Max deild kvenna var settur á 30. apríl.

Knattspyrnusamband Íslands frestaði öllum leikjum um leið og samkomubannið var sett á en hefur ekki tilkynnt frekari breytingar.

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands átti að hittast í dag og þar má búast við fréttum af svipuðum frestunum og í Svíþjóð. Annað kæmi mjög á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×