Fótbolti

Fyrrverandi forseti Real Madrid lést vegna kórónuveirunnar

Sindri Sverrisson skrifar
Lorenzo Sanz sat í forsetastólnum þegar Real Madrid varð Evrópumeistari í árið 1998 eftir 32 ára bið.
Lorenzo Sanz sat í forsetastólnum þegar Real Madrid varð Evrópumeistari í árið 1998 eftir 32 ára bið. VÍSIR/GETTY

Lorenzo Sanz, fyrrverandi forseti spænska stórveldisins Real Madrid, lést í dag 76 ára að aldri í kjölfar þess að hafa smitast af kórónuveirunni. Sanz hafði legið á spítala síðustu daga eftir að hafa veikst.

Sanz hélt um stjórnartaumana hjá Real Madrid á árunum 1995-2000 við góðan orðstír. Á þessum tíma lauk meðal annars langri þrautagöngu félagsins í Meistaradeild Evrópu en Real vann keppnina árið 1998, í fyrsta sinn í 32 ár. Þetta var sjöundi Evrópumeistaratitill Real Madrid en félagið hefur nú unnið keppnina 13 sinnum, langoftast allra. AC Milan kemur næst með 7 titla.

Sanz fékk til Real þjálfara á borð við Jupp Heynckes og Vicente del Bosque og festi kaup á mikilvægum leikmönnum eins og Roberto Carlos, Clarence Seedorf, Davor Suker og Predrag Mijatovic. Real varð Evrópumeistari 1998 og 2000, og Spánarmeistari 1997. Sanz tapaði engu að síður í forsetakosningum gegn Florentino Perez í júlí árið 2000.

Real Madrid mun heiðra minningu Sanz, samkvæmt frétt Marca, en ekki liggur fyrir með hvaða hætti það verður gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×