Marouane Fellaini, fyrrum miðjumaður Manchester United á Englandi, hefur greinst með kórónuveiruna en hann spilar nú í Kína. Er hann fyrsti leikmaður deildarinnar þar í landi sem greinst hefur með veiruna.
Sky Sports greinir frá.
Hinn 32 ára gamli Fellaini gekk í raðir Shendong Luneng í janúar á síðasta ári eftir að hafa verið á mála hjá Manchester United frá 2014.
Fellaini hafði verið í fríi í heimalandi sínu Belgíu en snéri aftur til Kína á föstudag. Svo virðist sem allir leikmenn liðsins hafi verið sendir í skimun til að athuga hvort þeir væru með veiruna þar sem Fellaini sýndi engin einkenni.
Marouane Fellaini has been diagnosed with coronavirus following his return to China, the Belgian's Chinese Super League club Shandong Luneng announced on Sunday.
— Sky Sports News (@SkySportsNews) March 22, 2020
Hann greindist þó með COVID-19 og hefur nú verið settur í einangrun.
Kínverska úrvalsdeildin átti að hefjast þann 22. febrúar síðastliðinn en hefur verið frestað ótmabundið. Veiran virðist á undanhaldi í landinu en ljóst er að þetta setur strik í reikninginn.
Fellaini lék alls 87 landsleiki fyrir Belgíu á sínum tíma en hann lagði landsliðsskóna á hilluna í mars 2019. Fór hann með liðinu á Ólympíuleika, Evrópu- sem og heimsmeistaramót.