Fótbolti

Zlatan æfir á fullu með Hammarby en veit ekki hvar hann mun spila næst

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Zlatan á æfingu með Hammarby.
Zlatan á æfingu með Hammarby. Heimasíða Hammarby

Sænski markahrókurinn Zlatan Ibrahimovic kveðst ekki vita hvar hans framtíð liggur í boltanum en hann æfir um þessar mundir af fullum krafti með sænska úrvalsdeildarliðinu Hammarby.

Hinn 38 ára gamli Zlatan á hlut í sænska félaginu en hann gerði hálfs árs samning við AC Milan í byrjun þessa árs og útilokar ekki að halda áfram að spila þar.

„Ég er með samning við Milan og við skulum sjá hvernig það endar, ef það endar. Ég vil spila fótbolta eins lengi og ég get og á meðan ég legg eitthvað til. Ég vil ekki bara spila út á nafnið mitt,“ segir Zlatan og heldur áfram.

„Við sjáum til hvað gerist. Hver vissi að kórónavírus myndi koma og snúa öllu á hvolf á tveimur vikum?“

Zlatan hefur æft með Aroni Jóhannssyni og félögum í Hammarby undanfarnar vikur og tók meðal annars þátt í æfingaleik með liðinu í gær og var að sjálfsögðu á skotskónum. Hann virðist þó ekki vera að stefna á að spila í heimalandinu um sinn en kveðst þakklátur fyrir að geta farið á fótboltaæfingar.

„Ég er mjög þakklátur að fá að æfa á meðan allt er lokað í Evrópu, sérstaklega á Ítalíu þar sem það er bannað að æfa og þú þarft að halda þig heima,“ segir Zlatan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×