UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, hefur ákveðið að veita hverju aðildarsambandi sínu 4,3 milljónir evra eða jafnvirði rúmlega 680 milljóna íslenskra króna, vegna kórónuveirukrísunnar.
Þetta er tilkynnt á heimasíðu UEFA í dag. Þar segir að samtals veiti UEFA 55 aðildarsamböndum sínum samtals 236,5 milljónir evra. Fær hvert þeirra jafnmikið í sinn hlut. Tekið er fram að samböndin ráði því alfarið sjálf hvernig fénu verði ráðstafað og að greiðslurnar komi í ár og á næsta ári. Peningarnir koma úr UEFA HatTrick sjóðnum og átti að vera útdeilt á árunum 2020-2023 til að styðja við þróun íþróttarinnar með ýmsum hætti. Um fyrirframgreiðslu er því að ræða á fé sem KSÍ hefur til að mynda þegar eyrnamerkt ákveðnum rekstrarkostnaði og verkefnum.
„Íþróttin okkar glímir við fordæmalausa áskorun vegna Covid-19 krísunnar. UEFA vill hjálpa aðildarsamböndum sínum til að bregðast við með þeim hætti sem hentar hverju þeirra fyrir sig. Þess vegna höfum við ákveðið að veita hverju sambandi allt að 4,3 milljónir evra, sem greiddar verða út á þessu ári og því næsta, og sem hluti af framkvæmdastyrk, og að samböndin geti nýtt þessa fjármuni með þeim hætti sem þau telja bestan til að byggja fótboltasamfélagið upp,“ sagði Aleksander Ceferin, forseti UEFA.