Erlent

Hverjar verða afleiðingar atburða gærdagsins?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tiltekt í þinghúsinu.
Tiltekt í þinghúsinu. AP/Andrew Harnik

Mikill titringur er í Washington D.C. eftir atburðarás gærdagsins og meðal annars rætt óformlega um að koma forsetanum frá. Bandaríska þingið lauk í gær talningu atkvæða kjörmanna og því ekkert sem kemur í veg fyrir að Joe Biden verði forseti 20. janúar nk.

Innrásin í þinghúsið þykir hafa komið í bakið á Donald Trump og Repúblikanaflokknum, sem átti ekki góðan dag fyrir. Demókratar mörðu sigur í báðum aukakosningunum í Georgíu, sem þýðir að demókratar hafa náð meirihluta í deildinni í fyrsta sinn í áratug.

Áður en þingfundur hófst höfðu margir háttsettir repúblikanar mælst til þess að sigur Joe Biden í forsetakosningunum yrði staðfestur án andmæla. Þegar á hólminn var komið, og þrátt fyrir óeirðirnar í og við þinghúsið, mótmæltu hins vegar sex öldungadeildarþingmenn og 121 þingmaður fulltrúadeildarinnar.

Sjá einnig: „Hann var algjört skrímsli í dag“

Sjá einnig: Ýti undir umræðu að lögregla sé hliðholl svona öflum

Sjá einnig: Íslenski fáninn meðal stuðningsmanna Trump vekur athygli

Ljóst er að gjá hefur myndast innan Repúblikanaflokksins; sumir sjá hag flokksins best borgið með því að segja skilið við síðustu fjögur ár og horfa til framtíðar, á meðan aðrir virðast staðráðnir í því að byggja á þeim mikla stuðningi sem Trump nýtur meðal hluta landsmanna.

Búist er við uppsögnum í Hvíta húsinu í dag og á næstu dögum en forsetinn hefur heitið því að valdaskiptin verði friðsamleg.

Vísir heldur áfram að fylgjast með þróun mála í vaktinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×