Heilbrigðisráðherra greindi frá því í gær að ákveðið hefði verið að fólk sem kemur hingað til landsins og hafnar sýnatöku þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví í farsóttarhúsi. Sóttvarnalæknir hafði lagt til að skylda tvöfalda sýnatöku en ráðherra taldi þessa leið betri kost.
Gylfi á ekki von á mikilli fjölgun í farsóttarhúsunum vegna breyttra reglna.
„Nei, ég held nú ekki. Ég held það verði ekki margir sem velji þessa leið satt að segja,“ segir Gylfi Þór. Hann á ekki von á að meira vesen verði á því fólki en öðru sem dvelur á farsóttarhúsinu.
„Þegar þú tekur ákvörðun um að sleppa sýnatöku veistu við hverju þú átt að búast. Ég held að þetta verði ekki mikið vesen,“ segir Gylfi Þór.
Hann nefnir þó að tvær vikur á farsóttarhúsinu sé ekki óskastaða fyrir neinn.
„Þetta eru ekki stór herbergi, þú vilt frekar vera annars staðar. Þú færð mat þrisvar á dag og við reynum að sinna grunnþörfum hvort sem er með spjalli eða annað,“ segir Gylfi Þór.
„Fjórtán dagar inni hjá okkur er engin sæla. Ég get alveg sagt ykkur það.“