Erlent

Réttarhöldin hefjast í næstu viku

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. Doug Mills-Pool/Getty

Réttarhöldin yfir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefjast í öldungadeild bandaríska þingsins í næstu viku. Þetta sagði Chuck Schumer, leiðtogi Demókrataflokksins í öldungadeildinni í dag.

Fulltrúadeildin ákærði Trump á dögunum fyrir að hafa hvatt til uppreisnar, en stuðningsmenn hans réðust á þinghúsið í Washington með þeim afleiðingum að fimm létust. Repúblikanar í öldungadeild þingsins höfðu farið fram á að réttarhöldunum yrði frestað fram í febrúar svo Trump gæti undirbúið varnir í málinu.

„Ég hef heyrt nokkra kollega mína úr Repúblikanaflokknum færa rök fyrir því að réttarhöld brytu í bága við stjórnarskrá þar sem Donald Trump er ekki lengur í embætti. Það er röksemdarfærsla sem hefur verið hafnað af hundruðum fræðimanna,“ sagði Schumer í þinginu í dag.

Hann sagði jafnframt að réttarhöldin færu fram með sanngjörnum hætti og að fulltrúadeildin myndi afhenda öldungadeildinni ákæruna á mánudag.

Trump er fyrsti forseti Bandaríkjanna sem er ákærður til embættismissis í tvígang. Komandi réttarhöld í öldungadeildinni verða sömuleiðis þau einu sinnar tegundar í sögunni, sem fram fara eftir að forseti Bandaríkjanna hefur látið af embætti, en innsetningarathöfn Joe Biden Bandaríkjaforseta fór fram á miðvikudag.


Tengdar fréttir

Fauci segir frelsandi að vinna ekki lengur undir Donald Trump

Dr. Anthony Fauci, yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna og einn helsti sóttvarnasérfræðingur, segir að það sé frelsandi tilfinning að geta nú greint frá vísindalegum staðreyndum í tengslum við kórónuveiruna og faraldur hennar án þess að óttast viðbrögð Donalds Trump.

„Hjálpin er á leiðinni“

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur nú skrifað undir tíu forsetatilskipanir sem snúa að baráttunni við kórónuveirufaraldurinn í Bandaríkjunum. Tilskipununum er ætlað að hrinda af stað metnaðarfullri áætlun forsetans til að draga verulega úr útbreiðslu Covid-19.

Biden gefur í gegn veirunni

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, skrifar undir tíu forsetatilskipanir í dag sem snúa að baráttunni við faraldur nýju kórónuveirunnar. Meðal þeirra aðgerða sem grípa á til er að skikka fólk til að auka framleiðslu bóluefna, auka skimun, opna skóla og fyrirtæki samhliða því að auka notkun andlitsgríma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×