Innlent

Éljagangur á Norður- og Austurlandi og frost allt að tíu stig

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður heldur kalt á landinu í dag eins og þetta hitaspákort Veðurstofunnar fyrir klukkan tólf á hádegi sýnir.
Það verður heldur kalt á landinu í dag eins og þetta hitaspákort Veðurstofunnar fyrir klukkan tólf á hádegi sýnir. Veðurstofa Íslands

Norðan- og norðaustanátt í dag, víða átta til fimmtán metrar á sekúndu. Það er spáð áframhaldandi éljagangi á Norður- og Austurlandi og því eru enn líkur á samgöngutruflunum á þeim slóðum, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Ferðalangar ættu því að kynna sér færð og ástand vega áður en lagt er af stað.

Þá er enn óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum og hættustig vegna snjóflóðahættu á Ísafirði.

„Á ratsjármyndum sést snjókomubakki skammt undan suðvesturströndinni, en það er enn óljóst hversu langt hann gengur inn á land. Suðvestantil á landinu eru því líkur á snjókomu, en það gæti brugðið til beggja vona. Á Suðausturlandi er hins vegar útlit fyrir bjartviðri í dag. Frost 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Í kvöld bætir í vind vestanlands og á morgun verða austan og norðaustan þrettán til átján metrar á sekúndu en talsvert hægari vindur um landið austanvert. Dálítil él norðantil á landinu en annars úrkomulítið. Þá herðir talsvert á frostinu.

Veðurhorfur á landinu:

Norðlæg átt, víða 8-15 m/s. Él norðan- og austanlands, og bjartviðri á Suðausturlandi, en austlægari og líkur á snjókomu suðvestantil. Frost 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Bætir í vind vestanlands í kvöld.

Austan og norðaustan 13-18 á morgun, en hægari vindur um landið austanvert. Dálítil él norðantil á landinu, annars úrkomulítið. Herðir heldur á frosti.

Á þriðjudag:

Austan og norðaustan 13-18 m/s, en hægari vindur um landið A-vert. Víða dálítil él fram eftir degi, en þurrt SA-lands. Frost frá 1 stigi syðst á landinu, niður í 13 stig í innsveitum NA-til.

Á miðvikudag:

Austlæg átt 10-18 á S- og V-landi og lítilsháttar slydda eða snjókoma með köflum. Hægari vindur og þurrt N- og A-lands. Frost 1 til 9 stig, en frostlaust við suðurströndina.

Á fimmtudag:

Austan og suðaustan 5-13 og bjart með köflum, frost 0 til 7 stig. Austan 13-18 með suðurströndinni, skýjað og hiti 0 til 3 stig.

Á föstudag:

Suðaustlæg átt og dálitlar skúrir eða él á S- og V-landi með hita rétt yfir frostmarki. Þurrt og bjart veður á N- og A-landi og frost 1 til 7 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×