Erlent

Fleiri en fimm þúsund hand­teknir í Rúss­landi: Fangelsi að fyllast í Moskvu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þúsundir mótmælenda hafa komið saman í Moskvu og víðar um Rússland í dag. Margir þeirra hafa verið handteknir. 
Þúsundir mótmælenda hafa komið saman í Moskvu og víðar um Rússland í dag. Margir þeirra hafa verið handteknir.  Getty/Mikhail Svetlov

Þeim fer enn fjölgandi sem hafa verið handtekin í Rússlandi vegna mótmælanna sem þar standa yfir víða um landið. Þúsundir Rússa sem þátt taka í mótmælunum krefjast þess að stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny verði látinn laus úr haldi og að Pútín Rússlandsforseti segi af sér. 

Þegar þetta er skrifað höfðu fleiri en fimm þúsund þegar verið handtekin fyrir þátttöku sína í mótmælunum í 86 borgum víðsvegar um Rússland. Þar af hafa flest verið handtekin í Moskvu og Pétursborg. Hafa samskipti lögreglu og mótmælenda í mörgum tilfellum verið ofbeldisfull.

Meðal þeirra sem hafa verið handtekin í dag er Yulia Navalnaya, eiginkona Navalny, en henni var síðar sleppt. Þá hefur bróðir Navalny og Mara Alyokhina, aðgerðasinni úr hljómsveitinni Pussy Riot, verið sett í stofufangelsi. Blaðamenn og ýmsir aðgerðasinnar sem berjast fyrir mannréttindum eru einnig meðal hinna handteknu. Að því er BBC greinir frá hafa það margir verið handteknir í Moskvu að lögreglan ku vera í vandræðum með að finna pláss fyrir allt fólkið sem er í haldi.

Í Moskvu hefur lögreglan lokað lestarstöðvum og miðborgin hefur verið lokuð af. „Það er áhættusamt að mótmæla í Rússlandi. Jafnvel þótt þú sleppir undan lögreglu gætir þú verið rekinn, átt yfir höfði þér þunga sekt eða að höfðað verði gegn þér sakamál,“ skrifar Sarah Rainsford, fréttaritari BBC í Moskvu í fréttaskýringu.

Framganga rússneskra stjórnvalda í garð mótmælenda og handtaka Navalnys hefur sætt mikilli gagnrýni úr ýmsum áttum. Josep Borell, æðsti yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, er meðal þeirra sem hvatt hefur yfirvöld í Rússlandi til að virða réttindi mótmælenda og blaðamanna í Rússlandi.

Líkt og áður segir hafa mótmælendur komið saman víða um landið, meðal annars í borginni Novosibirsk í Síberíu, þar sem að minnsta kosti tvö þúsund mótmælendur örkuðu götur borgarinnar í dag og kölluðu slagorðin „frelsi“ og „Pútín er þjófur.“

Í Yakutsk sem einnig er í Síberíu fór frost niður í fjörutíu stig í dag sem kom þó ekki í veg fyrr mótmæli. „Ég er þreyttur á alræðishyggjunni og lögleysunni hjá stjórnvöldum. Engum spurningum hefur verið svarað. Ég vil skýrleika, opið samfélag og breytingar. Það er þess vegna sem ég kom hingað,“ sagði maður að nafni Ivan sem þar tók þátt í mótmælum.

Navalny var fangelsaður eftir að hann snéri aftur til Rússlands frá Þýskalandi eftir að hafa jafnað sig eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitri. Sjálfur segir hann rússnesku öryggislögregluna bera ábyrgð á morðtilrauninni gegn sér en því hefur verið hafnað af forsetaembættinu í Kremlin. Navalny segir handtöku sína vera með öllu ólögmæta.

Boðað hefur verið til áframhaldandi mótmæla á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×