Fótbolti

Bayern sektaði leikmann fyrir að fá sér nýtt húðflúr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Corentin Tolisso sýndi algjört hugsunarleysi og má ekki umgangast Bayern liðið á næstunni.
Corentin Tolisso sýndi algjört hugsunarleysi og má ekki umgangast Bayern liðið á næstunni. Getty/Mario Hommes

Franskur heimsmeistari varð að fá sér nýtt húðflúr í miðjum heimsfaraldri og yfirmenn hans voru allt annað en sáttir.

Franski miðjumaðurinn Corentin Tolisso var hvergi sjáanlegur í leik Bayern München um helgina og það var aðeins honum sjálfum að kenna.

Forráðamenn Bayern ákváðu að sekta leikmanninn og taka hann út úr hópnum fyrir leikinn á móti Hoffenheim í þýsku deildinni.

Franski heimsmeistarinn braut sóttvarnarreglur með því að „laumast út“ og fá sér nýtt húðflúr.

Corentin Tolisso sýndi myndband af sér og nýja húðflúrinu á samfélagsmiðlum en tók það seinna út. Forráðamenn Bayern urðu þess hins vegar varir og brugðust skjótt við.

„Við erum ánægð með að það geti hreinlega farið fram leikir í Bundesligunni í þessu ástandi. Þetta er ástand sem kallar á það að leikmenn, þjálfarar og starfsmenn passi upp á það að fylgja öllum sóttvarnarreglum,“ sagði Karl-Heinz Rummenigge, framkvæmdastjóri Bayern München, í yfirlýsingu.

„Corentin Tolisso hefur nú brotið þessar reglur þrátt fyrir að stjórnendur félagsins hafi farið skýrt og greinilega yfir þessar reglur með liðnu. Þetta er pirrandi og verður ekki umborið,“ sagði Rummenigge.

Corentin Tolisso er 26 ára gamall. Hann hefur komið við sögu í átján leikjum á tímabilinu þar af tólf í þýsku deildinni. Hann skoraði eitt mark í þýska ofurbikarnum í lok september og annað mark í sigri á Atlético Madrid í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×