Ekstrabladet segir frá þessu og vísar í tilkynningu frá lögreglu. Lögregla lýsti í gær eftir hinni 43 ára Freyju Egilsdóttur sem búsett hefur verið í Malling, suður af Árósum, á Jótlandi. Búið er að upplýsa fjölskyldu Freyju um andlátið.
DV segir frá því að Freyja hafi búið í Danmörku um árabil og stofnað til fjölskyldu þar í landi.
Ekkert hafði sést til Freyju síðan á fimmtudagkvöld. Lögregla á Austur-Jótlandi segir frá því að líkamsleifar hafi svo fundist á og við heimili hennar í Veilgårdsparken í Malling.
Den 43-årige kvinde, der blev efterlyst i går, er med stor sandsynlighed fundet dræbt på sin bopæl i Malling. Hendes 51-årige tidligere samlever er anholdt og sigtet for manddrab. Han bliver kl. 09.30 fremstillet i grundlovsforhør i Aarhus: https://t.co/S3bdYW1uXl #politidk pic.twitter.com/erzNPzLlhU
— Østjyllands Politi (@OjylPoliti) February 3, 2021
Í tilkynningu lögreglu segir að fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi verið handtekinn í gærmorgun. Hann var svo færður fyrir dómara í Árósum nú í morgun þar sem farið verður fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald. Réttarmeinarannsókn fer fram í dag.
Maðurinn hafði sjálfur tilkynnt lögreglu um hvarf konunnar á þriðjudagsmorguninn, en fljótt fór grunur lögreglu að beinast að manninum og var hann þá handtekinn.
Tilkynnt um veikindi í smáskilaboðum
Lögreglustjórinn Michael Kjeldgaard segist í samtali við Ritzau ekki geta upplýst um hvort maðurinn játi eða neiti sök í málinu. Hann getur sömuleiðis ekki upplýst um mögulegar ástæður morðsins. Sömuleiðis sé verið að rannsaka hvenær konan hafi verið ráðinn bani.
Danskir fjölmiðlar greina frá því að konan hafi starfað á öldrunarheimili í bænum Odder. Smáskilaboð hafi borist til vinnuveitenda á laugardaginn þar sem hún tilkynnt var um veikindi. Þó sé óljóst hvort hún hafi raunverulega sent umrædd skilaboð.
Fréttin hefur verið uppfærð.