Erlent

Trump ætlar ekki að bera vitni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Ráðgjafi Trump segir fyrrverandi forsetann ekki ætla að bera vitni um þann ákærulið gegn honum sem snýr að því að hvetja til uppreisnar. Réttarhöld vegna ákæru fyrir embættisbrot hefjast í öldungadeild Bandaríkjanna þann 9. febrúar næstkomandi.

Jamie Raskin, þingmaður Demókrataflokksins sendi fyrrverandi forsetanum bréf með boði um að bera vitni í réttarhöldunum. Í bréfinu segir að Trump hafi hafnað þeim ásökunum sem settar voru fram í ákærunni, þrátt fyrir „augljós og yfirgnæfandi“ sönnunargögn sem væru fyrir hendi. Í ljósi andmæla hans væri honum boðið að bera vitni við réttarhöldin.

Nokkrum klukkustundum eftir að bréfið var sent sagði Jason Miller, ráðgjafi Trump að forsetinn fyrrverandi muni ekki bera vitni. Lögmenn Trump líktu beiðninni Raskin við „markaðsbrellu“.

Trump er ekki skyldugur til að bera vitni um ákæruliðinn. Það kom þó fram í beiðninni að ef hann hafni boðinu sé hægt að nota þá ákvörðun forsetanum fyrrverandi í óhag.

„Ef þú hafnar þessu boði áskiljum við okkur allan rétt, meðal annars þann rétt að neitun þín styðji við ályktanir varðandi athafnir þínar (og athafnaleysi) sem eru þér í óhag.“

Í beiðni Raskin kemur fram skýr vilji demókrata um að leggja fram mál á hendur forsetanum þrátt fyrir að hann hafi yfirgefið Hvíta húsið.

Trump var ákærður fyrir embættisbrot öðru sinni þann 13. janúar, sjö dögum áður en hann lét af embætti. Snúa ákærurnar einna helst að því að hvetja til uppreisnar og hlutverki forsetans í því að æsa fólk upp, sem á endanum braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar, með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í nóvember.

Hann er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið ákærður fyrir embættisbrot tvisvar sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×