Innlent

Hyggja að stofnun Norður­slóða­seturs kennt við Ólaf Ragnar

Atli Ísleifsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson gegndi embætti forseta Íslands á árunum 1996 til 2016.
Ólafur Ragnar Grímsson gegndi embætti forseta Íslands á árunum 1996 til 2016. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa nefnd um undirbúning að stofnun og byggingu Norðurslóðaseturs í Reykjavík sem yrði kennt við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytisnu. Áformin séu í samræmi við tillögur Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra en þar sé lagt til að Norðurslóðasetur verði framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle. 

„En þær gera jafnframt ráð fyrir að náið samstarf verði á milli Norðurslóðasetursins, stjórnvalda, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.

Ólafur Ragnar Grímsson var hvatamaður að stofnun Hringborðs norðurslóða og hefur verið forystumaður þess frá stofnun árið 2013. Hringborð norðurslóða hefur þróast í að verða helsta aflstöð hugmynda um málefni norðurslóða en árleg þing þess eru orðin stærsta stefnumót heimsins um málefni svæðisins.

Í Norðurslóðasetri yrði aðstaða fyrir erlenda vísindamenn en jafnframt er gert ráð fyrir að setrið hýsi safn um norðurslóðir. Gert er ráð fyrir að setrið nýti sér liðsinni erlendra stofnana, sjóða og samtaka sem tengjast Hringborði norðurslóða til að styrkja fjárhagslegan grundvöll framkvæmda og reksturs.

Í nefndinni munu eiga sæti fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Hringborði norðurslóða. Nefndin á að skila ríkisstjórninni tillögum fyrir 1. apríl nk.,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×