Skoðun

Fíkn er sjúk­dómur!

Sigurður Páll Jónsson skrifar

Að sópa rykinu undir teppið er mörgum tamt ef ekki á að þrífa almennilega. Skyndilausnir henta stjórnmálamönnum yfirleitt betur heldur en framtíðarsýn og lausnir sem taka langan tíma. Vandamál vegna neyslu áfengis og annara fíkniefna hafa ekki beðið varhluta af slíkum hugsunarhætti. Vandamál tengd fíkn hafa fylgt mannkyninu um aldir. Þó mjög margt hafi unnist í glímunni við fíknisjúkdóminn er mikið verk óunnið og ýmislegt sem bendir til að við séum á slæmum stað. Rannsóknir sína að 20% mannkyns sem neytir fíkniefna ýmiskonar, glími við fíknivanda.

Meðferð á Íslandi er á heimsmælikvarða.

Framfarir í meðferðum, lækningum og stuðningur sjálfshjálparsamtaka hafa verið miklar. Viðhorf til efnanna sem sjúkdómurinn veldur er misjafnt. Stór hluti þeirra er ólöglegur og af þeim sökum er litið á þá sem þau nota sem lögbrjóta. Til upprifjunar í sögulegu samhengi, þá var áfengi bannað á árunum 1920 til 1935 og fjölmennir hópar skilgreindir sem brotamenn.

Stjórnmálamönnum hafa oftar en ekki verið mislagðar hendur í glímunni við fíknisjúkdóminn. Á Íslandi var t.d. talað um fíkniefnalaust Ísland fyrir árið 2000 af ákveðnum stjórnmálaflokkum seint á síðustu öld.

Afglæpavæðing neysluskammta.

Á samráðsgátt stjórnvalda hafa legið drög að lögum frá heilbrigðisráðherra frá 17. nóvember sem miða að því að afglæpavæða neysluskammta fíkniefna. Þetta er svipað frumvarp og fellt var í atkvæðagreiðslum á Alþingi í fyrra.

Umsagnir um málið á samráðsgátt eru 24 talsins. Margir eru ánægðir með áformin en aðrir, líkt og undirritaður, telja að til að ná árangri þurfi heildstæð stefnumótunarvinna að fara fram áður en slík ákvörðun er tekin. Fíkn er sjúkdómur og meðferðin við honum og þekking hér á landi er mikil. Að þeirri lækningu koma að stærstu leyti áhugasamtök og meðferðarstofnanir með gríðarlega sérþekkingu.

Gögnin sem fylgja þessum áformum gefa til kynna að með þessari stöku lagasetningu sé m.a. skörun við dómsmálaráðuneytið sem fer með málefni ríkissaksóknara og lögreglu sem framfylgja lögum um ávana- og fíkniefni.

Markmið nýrra laga.

Í drögum ráðherra að lögum um afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna koma jafnframt fram áform um helstu breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, þau eru:

  • Varsla á neysluskömmtum verði ekki refsiverð.
  • Ráðherra sé gert með reglugerð að kveða á um hvaða ávana- og fíkniefni teljist til eigin nota miðað við neysluskammta.
  • Heimild lögreglu til upptöku efna nái ekki til þeirra efna sem séu í vörslu einstaklinga yfir 18 ára aldri þegar magn efnanna er innan þess sem talist getur til eigin nota.

Auk þessa kemur fram í skjalinu að ekki hafi verið gerð verkefnaáætlun. Þá segir að áætlað sé að frumvarpið taki þegar gildi, verði það að lögum. Ekki er gert ráð fyrir undirbúningi eða aðlögun jafn áhrifamikils máls.

Við yfirlestur draganna kemur fram að takmörkuð vinna hafi farið fram við undirbúning þessa viðamikla verkefnis, sem vel að merkja, lýtur ekki einungis að breytingum á lögum.

Hvað var gert í Noregi?

Í Noregi hefur til dæmis farið fram gríðarlega umfangsmikil stefnumótunarvinna í tengslum við endurskoðun á málefnum sem varða ávana- og fíkniefni þar í landi. Hinn 23. mars, 2018 var til að mynda komið á fót tíu manna nefnd sem hafði með höndum það verkefni að yfirfara löggjöf og móta stefnu í þessum efnum. Nefndin skilaði skýrslu til heilbrigðisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis Noregs 19. desember, 2019 og telur skýrslan rúmlega 400 blaðsíður.

Norska nefndin samanstóð af þverfaglegum hópi sérfræðinga og hafði samráð við fjölda stofnana, samtaka og annara hagsmunaaðila á meðan á vinnu nefndarinnar stóð. Í skýrslunni er meðal annars að finna tillögur að lagabreytingum á hinum ýmsu lagabálkum.

Nefndin lagði til að varsla neysluskammta verði ekki refsiverð en þó verði lögreglu sem endranær, heimilt að stöðva notkun, verði hún vör við slíkt og gera efni upptæk. Þess í stað er þeim sem teknir eru með neysluskammta gert skylt að sækja fund hjá félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem boðin verði fræðsla og aðstoð.

Samhliða þessu leggur nefndin til að forvarnarstarf verði stóraukið og meðferðarúrræðum fjölgað. Í skýrslunni eru einnig tillögur meiri- og minnihluta nefndarinnar um mörk neysluskammta. Framangreint er aðeins brot að því sem norska nefndin tók til skoðunar og getið er um í skýrslunni.

Hvað er neysluskammtur?

Til stóð í kjölfar setningu laga nr. 48/2020 um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 (Neyslurými), að skilgreina í reglugerð hvað teldist vera neysluskammtar sem notendum væri heimilt að bera á sér til notkunar í neyslurými. Reglugerðin hefur ekki enn litið dagsins ljós. Við samningu reglugerðarinnar þótti erfiðleikum bundið að skilgreina hvað teldist neysluskammtur og mun því ekki verða öðruvísi háttað þegar tekið verður til skoðunar við hvaða mörk beri að miða að því er varðar afglæpavæðingu neysluskammta.

Verkefni sem þetta er eins og áður segir gríðarlega viðamikið. Því þarf að fara í heildstæða stefnumótunavinnu líkt og norsku yfirvöldin hafa farið í gegnum undanfarin ár. Hafa þarf í huga að þegar svona viðamiklar breytingar eru lagðar fram, að undirbúningur og heildarendurskoðun þarf að eiga sér stað á fyrirhuguðum breytingum áður en frumvarp um breytingu á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni verður lagt fram.

Eins og kom fram við lagasetningu á neyslurýmum vorið 2020 átti að gefa út reglugerð um hvað teldist vera neysluskammtur. Sú reglugerð hefur ekki komið fram. Þeirri spurningu er ekki auðvelt að svara. Skammtur sem dugar einum getur drepið annan. Fíklar eru veikt fólk og það ber að koma fram við það sem slíkt. Fíkn er sjúkdómur sem hefur afleiðingar fyrir fjölskyldu fíkilsins. Í framkvæmd hljóta sem betur fer fáir refsingu fyrir vörslu neysluskammta. Dómur fyrir slíkt getur hins vegar fylgt einstaklingum alla ævi, jafnvel þó að viðkomandi hafi náð bata, það er miður.

Umsögn Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu bendir m.a. á í sinni umsögn: Umsögn frá ríkissaksóknara dags. 14. nóv. 2019, við frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni (afglæpavæðing neysluskammta) á 150. löggjafarþingi 2019-2020, 23 mál. Þau efni sem falla undir lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og finnast á íslensku forráðasvæði eru þangað komin eða tilkomin á ólögmætan hátt og því verði þau gerð upptæk.

Refsing hefur áhrif til lífstíðar.

Það mætti skoða þá leið að milda refsingar í slíkum tilvikum. Mikilvægt skref í því sambandi væri að refsing þeirra sem lögreglan hefur afskipti af og væru með neysluskammt, kæmi aldrei fram á sakavottorði og yrði eytt út úr skrám lögreglu eftir eitt til tvö ár.

Undirritaður hefur í þrjátíu ár fjallað um þessi mál og horft á eftir mörgum vinum og félögum sem fallið hafa frá af völdum fíknisjúkdóms, bæði af neyslu löglegra og ólöglegra efna. Stjórnvöld þurfa að eyða biðlistum inn í meðferðir. Auka fræðslu og félagsþjónustu. Stórauka forvarnir og samstarf við lögregluna. Alvöru aðgerða er þörf, ekki smáskammtalækninga.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í NV-kjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×