Fótbolti

Alaba stað­festir að hann sé á förum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
David Alaba mun yfirgefa Bayern eftir 13 ára dvöl í sumar.
David Alaba mun yfirgefa Bayern eftir 13 ára dvöl í sumar. M. Donato/Getty Images

David Alaba, varnarmaður heims-, Evrópu- og Þýskalandsmeistara Bayern München, staðfesti í dag það sem hefur verið vitað undanfarnar vikur. Að hann muni yfirgefa félagið í sumar er samningur hans rennur út.

Hinn 28 ára gamli Alaba hefur verið orðaður við Spánarmeistara Real Madrid undanfarið og er eftirsóttur af nær öllum stóru liðum Evrópu. Alaba hefur verið á mála hjá Bayern í 13 ár en hefur ákveðið að kalla þetta gott. Er talið að launakröfur hans séu of háar fyrir Bayern.

„Fyrst og fremst vil ég nýja áskorun. Ég vill þróa minn leik,“ sagði Alaba í viðtali í dag.

Alaba er einkar fjölhæfur leikmaður og hefur leikið í stöðu miðvarðar undanfarið hjá Bayern. Einnig hefur hann spilað sem vinstri bakvörður og miðjumaður. Með austurríska landsliðinu hefur hann spilað framarlega á miðjunni eða í „holunni“ á bakvið framherja liðsins.

Bæjarar hafa nú þegar fyllt skarðið sem Alaba mun skilja eftir sig en félagið staðfesti kaup á franska varnarmanninn Dayot Upamecano fyrr í vikunni. Sá kemur frá RB Leipzig, einum af helstu keppinautum Bayern í Þýskalandi.

Alaba hefur á sínum tíma hjá Bayern unnið níu meistaratitla – sem verða eflaust tíu að loknu þessu leiktímabili – ásamt því að hafa unnið þýska bikarinn sex sinnum og Meistaradeild Evrópu tvívegis. Það er því ljóst að þessi sigursæli leikmaður mun vilja fara í lið þar sem barist er um alla titla sem eru í boði.

Hvaða lið það verður á eftir að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×