Innlent

For­stjóri heilsu­gæslunnar biðst af­sökunar á töfum við greiningu leg­háls­sýna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Óskar Reykdalsson segist harma þær áhyggjur sem seinkunin á greiningum hefur valdið.
Óskar Reykdalsson segist harma þær áhyggjur sem seinkunin á greiningum hefur valdið. Mynd/Stöð 2

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, biður allar þær konur sem hafa orðið fyrir óþægindum vegna þeirrar seinkunar sem hefur orðið á greiningu leghálssýna eftir að heilsugæslan tók við skimuninni af Krabbameinsfélaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilsugæslunni.

Rannsóknarstofan á Hvidovre-sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn tilkynnti í dag að búið væri að greina nær öll sýni sem tekin voru í desember síðastliðnum og biðu langan tíma í kössum hjá heilsugæslunni í Hamraborg.

Óskar segist gera ráð fyrir því að eftir tvær vikur verði búið að vinna upp öll þau sýni sem hafa verið á bið. Nær þetta væntanlega einnig til sýna sem voru tekin í janúar og fram til þessa dags.

„Þegar hafa verið póstlögð um 2.300 svarbréf þar sem konunum er gerð grein fyrir niðurstöðu greiningarinnar, og örfá til viðbótar fara í póst næstu daga. Við munum svo á næstu dögum setja okkur í samband við þær konur sem þurfa á frekari skoðun að halda. Öll þessi svör verða sett á www.island.is fyrir helgi,“ segir Óskar í tilkynningunni.

„Okkur þykir mjög leitt að þessi seinkun hafi valdið óþarfa áhyggjum og erum þess fullviss að þjónustan muni á næstunni verða bæði betri og hraðvirkari en fyrr.“

Óskar segir leghálsskimunina öfluga forvörn og bendir á að hægt sé að panta tíma með því að fara inn á heilsuvera.is eða hringja í næstu heilsugæslu. 

„Við biðjum alla þá sem hafa haft af þessu óþægindi afsökunar.“


Tengdar fréttir

„Við erum með aðgengilegri þjónustu en áður, ódýrari og öruggari“

Heilbrigðisráðherra segir að danska rannsóknarstofan sem heilbrigðisráðuneytið samið við um greiningu leghálssýna sé meðal þeirra fremstu í heiminum. Hún vonar að hægt verði að byggja upp samskonar þekkingu hér á landi. Danska rannsóknarstofan skuldbindi sig að birta niðurstöður innan þriggja vikna frá afhendingu sýna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×