Innlent

Tíu þúsund skjálftar frá því hrinan hófst á mið­viku­dag

Vésteinn Örn Pétursson og Birgir Olgeirsson skrifa
Jarðskjálftamælir á Reykjanesi.
Jarðskjálftamælir á Reykjanesi. Vísir/Vilhelm

„Það hafa verið rúmlega 700 skjálftar frá miðnætti og það er bara svipað og síðustu nætur. Við vorum að taka saman fjöldann, nú eru skjálftarnir komnir yfir tíu þúsund frá 24. febrúar,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu. 

Miðvikudaginn 24. febrúar síðastliðinn hófst skjálftahrina á Reykjanesi sem hefur staðið yfir síðan.

Upp úr miðnætti í nótt varð skjálfti sem var 4,7 að stærð um þrjá kílómetra suðvestur af Keili. Stærsti skjálftinn síðan þá varð nú í morgun klukkan 07:54, en hann var 4 að stærð og átti upptök sín skammt frá Fagradalsfjalli.

Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingur sagði í samtali við fréttastofu í gær að svo virtist sem skjálftavirknin færðist í suðvestur, nær byggð í Grindavík. Elísabet segir einhverja skjálfta vera við suðvesturhorn Fagradalsfjalls.

„Það gerðist eftir skjálftann í gærmorgun. Það er bara eðlilegt að það verði spennubreyting eftir stærri skjálfta. Virknin er aðallega norðaustan við Fagradalsfjall,“ segir Elísabet. Því hafi ekki orðið nein grundvallarbreyting á hrinunni sem hefur staðið yfir síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×