Frá þessu segir í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, en stjórnin er skipuð til næstu fjögurra ára. Markmiðið með starfsemi Kríu er sagt vera að færa fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja hér á landi í meira samræmi við umhverfið erlendis og þannig efna samkeppnishæfni íslenskra sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.
Í fjármálaáætlun næstu fimm ára er samtals gert ráð fyrir um átta milljörðum króna til fjárfestinga Kríu, en nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun halda utan um umsýslu Kríu samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Stjórnina skipa þau:
- Ari Helgason, fjárfestir
- Eva Halldórsdóttir, lögmaður
- Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður ráðherra
- Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stofnandi Northstack og ráðgjafi, formaður stjórnar
- Pétur Már Halldórsson, forstjóri Nox Medical
„Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður var stofnaður með lögum nr. 65/2020. Sjóðurinn er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hlutverk Kríu er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds) sem sjálfir fjárfesta í nýskapandi sprotafyrirtækjum. Tilgangur með stofnun Kríu er að efla fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og er liður í stefnumótun stjórnvalda í málefnum nýsköpunar og í samræmi við Nýsköpunarstefnu,“ segir meðal annars í tilkynningunni.